5 ára afmæli

Við héldum upp á 5 ára afmælið hans Ernis seinasta sunnudag. Afmælisstrákurinn ákvað fyrir ári síðan að afmælið í ár yrði með Star Wars þema, eitthvað sem ég var viss um að myndi breytast en litli þrjóskupúkinn var harðákveðinn allt árið og Star Wars var niðurstaðan!

Ég byrjaði í lok sumars að skoða skreytingar á netinu, ég pantaði eitthvað smotterí af Ali express en mest keypti ég í Danmörku hjá Kalaskongen. Ég mæli alveg 100% með því að versla hjá þeim ef þið hafið einhvern erlendis til að taka á móti pakkanum, þar sem síðan sendir ekki til Íslands. Mér fannst vera mjög mikill verðmunur á svona góssi, ég keypti pappadiska, glös, servíettur, nokkrar týpur af borðum og skrauti og muffinsform með skrautpinnum á í kringum 7.000 kr. Skoðaði lítillega hvað svona myndi kosta hjá íslenskum aðilum og það var um það bil helmingi meira!

Á Ali express verslaði ég stóra tölustafa blöðru, í svörtu að sjálfsögðu

og Star Wars borða

Ég keypti svo svörtu blöðrurnar með Star Wars logoinu á Ali, en hvítu og rauðu voru keyptar á blöðrubarnum í Partýbúðinni.

Þær kröfur sem Ernir setti á veisluna sína voru að það yrðu pylsur í matinn og að hann fengi súkkulaðiköku. Pylsur voru lítið mál og eiginlega töluvert auðveldari framkvæmd en heitu réttirnir eða brauð og salöt eins og ég hef svo oft verið með. Allir voru mjög sáttir með eina grillaða pylsu með góðu kartöflusalati og svo köku í desert.

Kakan sem ég bakaði var hefðbundin súkkulaðikaka á fjórum hæðum. Á milli botnanna setti ég vanillu smjörkrem sem ég litaði rautt og svo hjúpaði ég kökuna með súkkulaði smjörkremi sem ég litaði svart. Ég hef alltaf leyft Erni að taka þátt í að baka með mér, sérstaklega þegar það kemur að hans eigin afmæliskökum. Árið í ár var engin undantekning og skemmtum við okkur konunglega við að skera út sykurmassastjörnur og setja á kökuna. Við ræddum líka fram og aftur hvernig hún ætti að vera, skoðuðum myndir og hann var alveg með í öllum ákvörðunum.

Maturinn sem við buðum uppá var:

Grillaðar pylsur og brauð
Kartöflusalat
Rúllubrauð með aspas, baconsmurtosti og skinku
Heitur grænmetisréttur a la mamma
Heimabakaðir kanilsnúðar
Rice krispies kökur
Afmæliskaka
Peruterta
Sælgætisskúffa
Rice krispies botn með bönunum, rjóma og karamellu
Dölubita með piparlakkrís
Vatnsmelóna og gul melóna skorin í sneiðar fyrir krakka á hlaupum
Melónu yoda með vínberjum og bláberjum

Svo var planið að bjóða upp á snakk, en það gleymdist inn í skáp. Það kom þó ekki að sök en við vorum að venju með allt of mikið af mat. Við lærðum það reyndar að þegar boðið er upp á mat eins og pylsur borðar fólk mun minna af öðru.

Afmælisdrengurinn var allavega í skýjunum með daginn og er strax farinn að gera plön fyrir 6 ára afmælið sitt!

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *