Af hverju ekki?

Um þetta tímabil sem er nýliðið rignir yfir mig spurningum um af hverju ég geri ekki alveg eins og allir hinir. Ég nefninlega held ekki jólin og fólki finnst ég stórfurðuleg, sem ég er og er stollt af því. Margar spurningarnar eru skemmtilegar, áhugaverðar og sumar ótrúlega skrítnar, óviðeigandi og allt uppí  að vera dónalegar. En ég reyni eftir bestu getu að svara þeim öllum eins kurteisislega og ég get.

 

Byrjum á af hverju ekki…..

Spurningin sem fylgir oft með þessari er yfirleitt ,,Trúirðu þá ekki á Jesú”

Svarið er einfaldlega Jú hann er aðal gaurinn 🙂 En vissirðu að jólin hafa ekkert með kristna trú að gera heldur eru þau þrælheiðin. Miðsvetrarhátíðir voru haldnar hátíðlegar um þetta leiti en þegar kristna átti heiminn tók kirkjan á það ráð að yfirtaka þessa hátíð þannig að afmæli Jesú var skellt þarna inn í og málið er dautt. Ég gæti líka komið með heillanga rullu um að Jesú fæddist ekki í desember og eitthvað og að hvergi er minnst á jól fyrr en um 300 árum eftir að Jesú á að hafa fæðst. Best er náttúrulega að fólk grúski í því sjálft ef það hefur áhuga á því og bendi ég þá helst á bókina hans Árna Björnssonar, Saga dagana.

Ertu á móti jólunum?

Alls ekki, tilhugsunin á bak við er falleg, að vera góður, gefa af sér og vera innan um vini og vandamenn er bara yndislegt. Já og ég elska ljósin sem eru um allt og lyfta upp þessum sjúka drunga sem liggur yfir öllu. Miðað við flesta er þetta bara hefð og fæstir halda jólin út af trúarlegum ástæðum (Ég held þau ekki útaf trúarlegum ástæðum 1 ástæðan alla vega) Ég hef líka spurt hvort fólk haldi að jólin væru svona vinsæl ef þau gengu einungis útá það að fara í kirkju og minnast fæðingu sonar Guðs, það væri enginn veislumatur og engar gjafir og í öllum tilfellum hefu svarið verið Nei ég myndi ekki nenna því. Ég er ekki Grinch og ég er alltof löt til að stela jólunum enda er rangt að stela.

Bíddu en þú átt barn, er þetta ekki hrikalega ömurlegt fyrir hann?

Strákurinn minn sem núna er að verða 15 ára og er með fullt af greiningum var nemandi í 2 ár hjá skóla sem heitir Brúarskóli. Þangað eru snillingar sendir sem eiga erfitt með að fúnkera í venjulegum skólum og þar er þeim kennt alls konar tækni til að takast á við þau verkefni sem eru í daglegu lífi.  Ég lét vita að við héldum ekki jólin og að hann verði mjög erfiður og reiður þegar verið er að spila jólalögin og föndra og eitthvað og að hann hafi fengið að sitja til hliðar í gamla skólanum sínum að læra stærfræði eða eitthvað sem hann var til í að gera frekar. Svarið sem ég fékk kom mér virkilega á óvart.

,,Eitt það versta sem þú getur gert barni með einhverfu er að halda jólin”

Þið getið ímyndað ykkur furðusvipinn á mér  en svo fékk ég útskýringuna sem ég skildi mjög vel. Eins og með strákinn minn þá er allt mjög bókstaflegt, t.d. fer maður  í skólann til að læra en ekki til að leika sér eða fara í ferðalög. Málið er að áreitið sem myndast fyrir jólin er að gera út af við krakkana og oft þurfa þau hvíld frá þessari geðveiki. Ég held að flestir geti verið sammála mér þegar ég segi að þetta er hátíð kaupmannsins dulbúin sem hátíð barnanna. Allir þurfa að vinna meira sérstaklega fólkið í verslunargeiranum því ekki getum við lokað búðum á eðlilegum tíma því þær gætu tapað á því. Allir hlaupa um og versla og versla og í hvert sinn sem kortið er straujað hækka magasýrurnar og vonandi verða þetta ekki jólin sem magasárið verður að veruleika. Það er ekki bara það að þurfa að kaupa allt heldur fyrir alla og oft leynast gjafir sem eru í raun drasl því að maður verður bara að gefa þessum og hinum og fæstir vita hvað er hægt að gefa fyrir sem minnstan peninginn. Já hugurinn er það sem skiptir máli en hvers vegna er fólk þá að skila hlutum í hrönnum strax á milli jóla og nýárs. Mér finnst miklu betra að kaupa það sem mig langar, þegar mig langar og þegar ég get fyrir fólkið mitt. Ég hvorki þarf né vil láta neyða mig í að gera eitthvað sem ég hvorki þarf né vil ekki gera.

Svo er það náttúrulega umræðan um fríið sem fólkið hefur svo verðskuldað unnið fyrir! Uhhhhhhhh ég hef unnið í þessum verslunargeira og á þeim tíma var ég ekki að reka heimili né með barn og þegar loksins kom að þessu langþráða fríi var ég orðin svo yfirþreitt að ég naut þess ekki neitt. Fyrir utan það hversu nauðsynlegt það er að mæta í fjölskylduboð, jafnvel nokkur yfir daginn það eitt er full vinna útaf fyrir sig. Hangikjöt hjá ömmu í hádeginu á jóladag og boð hjá mömmu um kvöldið svo ekki sé minnst á þegar tengdaforeldrar og foreldrar sem hafa slitið samvistum og komin með annan maka vilja að þú sért hjá þeim líka, þau rifrildi og fíla er alltaf skemmtileg. Slítandi? Mér finnst það bara við tilhugsunina.

En hvað gerirðu þá?

Well síðustu ár hef ég farið til Akureyrar og verið hjá vinkonu minni og við gerum alltaf eitthvað skemmtilegt. Fyrir utan það að elda og borða góðan mat þá bökum við og borðum það líka enda er enginn sem segir mér að ég megi ekki borða eitthvað gott. Ég fæ mér hamborgarahrygg og hangikjöt og annað gúmmelaði og ég borða þar til ég er næstum því eins og bolti með hendur og fætur og veltist svo um hamingjusöm og læt sem að kaloríur séu ekki eitthvað sem ég þarf að huga að.

Þetta ár fórum við í bjórböðin á Árskógarsandi og í fyrra fórum við á skíði. Við spilum borðspil, hittum vini, púslum og núna dundaði ég mér í að svortera Legó til að við gætum fundið alla kubbana eftir leiðbeiningarbæklingum svo hægt væri að kubba. Það var líka kúrt sér vel ofan í sófa og horft á bíómyndir eða þætti og allir 3 strákarnir voru sáttir og það sem betra er að mömmurnar voru það líka og í kaupbæti bíður ekki milljón króna vísareikningur okkar þannig að það er alveg hægt að segja að við séum líka frekar afslappaðar yfir þetta tímabil.

 

Finnst mér fólk kjánar að halda jólin? Nei það truflar mig ekki neitt. Mér finnst fólk þurfa að taka sína ákvörðun með alla hluti og við ættum að sýna þeim tillit fyrir þeirra ákvörðunum, við vitum ekki hvað býr að baki og á meðan fólk gerir ekki hluti sem eru ólöglegir þá kemur okkur í raun ekki við hvað það gerir.  En mér finnst líka nauðsynlegt að fólk viti að maður þarf ekki alltaf að gera eins og hinir og fyrir mig að taka þá ákvörðun að hætta hefur gefið mér ótrúlega frelsistilfinningu sem ég mun aldrei tíma að gefa uppá bátinn fyrir pakka og magasár.

 

En þar til síðar

kveðja

Bryndís Steinunn

 

 

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *