Afbrýðissemi í langtímasamböndum

Þetta blogg er á persónulegri nótunum og alveg afgerandi skammarlegt fyrir mig. En mér þykir þetta samt ótrúlega mikilvægt umræðuefni því að ég veit að ég er ekki ein um þessa upplifun.

Fyrir ekki svo löngu, og svo (því miður) aftur núna í vikunni, óx á mig þetta svokallaða „græna skrímsli“ sem kallað er afbrýðissemi.
Ég skammast mín virkilega fyrir þá hegðun sem ég sýndi maka mínum á meðan þetta gerpi tók sér bólfestu í mér. Yndislega, trausta og heiðarlega maka mínum.

Maðurinn minn byrjaði í námi í haust. Stórt skref í átt að stórum draumum.
Ég fylltist svo miklu stolti að sjá hann takast á við þetta verkefni og hann fékk mig til að taka það skref sjálf á nýja árinu. Ég hlakkaði svo til þess að vera í hlutverki stuðningsríka makans, sem gerði allt til að hvetja hann áfram, stappa í hann stálinu og sjá um börn og heimili á meðan hann myndi grafa sig í bækurnar. Ég hélt ég yrði besta kona heims í þessu hlutverki, enda mjög dyggur stuðningsmaður minna nánustu í öllum þeirra verkefnum.

En svo kom snögg bára í lygna hafið okkar. Og í stað þess að taka upp árar og hagræða bátnum, velti ég honum og stakkst á bólakaf.

Námið (fjarnám) byggist nánast eingöngu upp á hópaverkefnum og einskær tilviljun og heppni réði því að maðurinn minn fann hóp þar sem allir bjuggu í nálægu umhverfi og gátu því hist og unnið saman, í stað þess að rembast í hópsamtölum á netinu, sem við vitum öll að geta fljótt breyst í kássu af stöfum og erfitt að fylgja þræðinum. Fallegi, heillandi maðurinn minn og þrjár skvísur. Þið sjáið hvert þetta stefnir, er það ekki?

Ég hefði vel getað haldið mínu striki sem klappstýra, einblínt á það sem við eigum saman, hvað við höfum gengið í gegnum saman og hvert við erum að fara með lífið saman. En ég blindaðist.
Óöryggið greip mig heljartökum og sama hversu mikið ég reyndi að berjast um og kæfa það niður með rökhugsun þá gekk ekkert. Aldrei hef ég gengið í gegnum eins viðbjóðslegan graut tilfinninga og myndi ég ekki óska mínum versta óvini þessar kenndir.
                                                             Óörugg, hrædd, sár, reið, pirruð, efins.
Eftir að  hafa vaðið þennan ólgusjó af tilfinningum og leyft sambandinu að verða fyrir barðinu á háum öldum þeirra, ákvað ég loks að taka málin í mínar hendur.
Ég hreinlega talaði sjálf við eina skvísuna og útskýrði fyrir henni hvað væri í gangi, hvað ég væri að upplifa og setti fram ákveðnar “grunnreglur“ sem mér þætti vænt um að yrðu virtar og myndu hjálpa mér að komast í gegnum þetta. Ég var mjög stolt af mér.
Að sjálfsögðu er þessi kona besta skinn, sýndi mér mikinn skilning og tók mér opnum örmum. Mér létti svo. Og allt féll í sitt gamla form. Engin ógn um aðra konu.

En þá fann ég bara nýja geðveiki. Næsta kona í hópnum.

Ég hafði og hef engar áhyggjur af neinu framhjáhaldi. En ég var farin að hræðast um stöðugildi mitt sem besta vinkona maka míns. „Go to“ aðilinn hans. Mér fannst önnur kona vera að koma í minn stað þar. Allt er nú hægt að ofhugsa.

Þurfum ekkert að ræða það frekar, annað en að það er að sjálfsögðu ekkert til í þessu og ég verð bara að leggja mitt traust á það. Og nota tímann í að vera hans besta vinkona og klappstýra í stað þess að nota tímann í að rífast, grenja og hræðast. Annars gæti ég líklega bara gefið hann áfram, því enginn nennir að búa við slíkt til lengri tíma.

En ég gúgglaði og gúgglaði og gúgglaði. Ég vildi skilja af hverju þetta gerðist hjá mér. Ég vil ekki vera þessi manneskja og ég vil sjá til þess að þetta komi ekki upp aftur. Afbrýðissemi er nefnilega dauðadómur fyrir sambönd. Og ég elska sambandið mitt of mikið til þess að leggja það á höggstokkinn.

Hvað er afbrýðissemi?
Svörun við ákveðinni ógn – raunverulegri eða ímyndaðri – gagnvart gildisríku sambandi og gæðum þess. Afbrýðissemi er mjög algeng og hún er líka mismikil.
Vottur af afbrýðissemi getur verið holl fyrir sambandið – hvatt okkur til að meta maka okkar betur og leyfa makanum að finna fyrir því hversu mikilvægur hann er okkur. Ákveðið spark í rassinn. En of mikil afbrýðissemi, eins og ég var farin að upplifa, getur gert útaf við samband, og mun gera það ef hún leikur lausum hala of lengi.

Einkenni afbrýðissemi?
Að vera reiður, hræddur, sár, pirraður, áhyggjufullur, efast um sjálfan sig og samband sitt, sjálfsvorkunn.
Afbrýðissemi mölbrýtur sjálfsöryggi manns og það er erfitt að ræða þetta við aðra, því þú skammast þín fyrir þessar tilfinningar.

Af hverju verðum við afbrýðissöm?
Því við höfum óraunhæfar væntingar um samband okkar og til maka.
Við teljum okkur hafa eignarhald á maka okkar og eiga ekki að þurfa að deila honum.
Skortur á sjálfsöryggi.
Stjórnsemi.
Gömul sár eftir slíka upplifun í fyrri samböndum.
Ótti við að missa manneskjuna frá þér og stöðu þína í lífi hennar.

Og það sem mestu máli skiptir ..

Hvernig tekstu á við afbrýðissemi?
Viðurkenndu vandann fyrir sjálfum þér og skaðann sem hann er að valda.
Ræddu tilfinningar þínar við makann.
Ekki njósna um makann; sýndu traust og virtu trúnað.
Ákveddu að breyta hegðun þinni og læra af henni.
Mundu að þú stjórnar ekki maka þínum né átt hann, og getur því ekki stjórnað samskiptum hans við aðra.
Ákveðið í sameiningu ákveðnar grunnreglur sem henta ykkur báðum.

Sem betur fer er ég í sterku sambandi sem mun lifa af alla þá fellilbyli sem við römbum inn í, en vonandi er eingöngu logn og blíða framundan. En þetta er án efa það versta sem ég hef gengið í gegnum þegar kemur að hjarta mínu og tilfinningum, og ég vona að þessi langi lestur hjálpi öðrum í sömu sporum að komast á beinu brautina aftur svo að fallegt, heilbrigt samband fari ekki til spillist.

Þar til næst..

You may also like...

2 Responses

  1. January 16, 2019

    […] „Mér þykir þetta ótrúlega mikilvægt umræðuefni því að ég veit að ég er ekki ein um þessa upplifun. Fyrir ekki svo löngu, og svo (því miður) aftur núna í vikunni, óx á mig þetta svokallaða „græna skrímsli“ sem kallað er afbrýðissemi. Ég skammast mín virkilega fyrir þá hegðun sem ég sýndi maka mínum á meðan þetta gerpi tók sér bólfestu í mér. Yndislega, trausta og heiðarlega maka mínum,“ segir Katrín í færslu sinni á síðunni Amare.is […]

  2. January 16, 2019

    […] „Mér þykir þetta ótrúlega mikilvægt umræðuefni því að ég veit að ég er ekki ein um þessa upplifun. Fyrir ekki svo löngu, og svo (því miður) aftur núna í vikunni, óx á mig þetta svokallaða „græna skrímsli“ sem kallað er afbrýðissemi. Ég skammast mín virkilega fyrir þá hegðun sem ég sýndi maka mínum á meðan þetta gerpi tók sér bólfestu í mér. Yndislega, trausta og heiðarlega maka mínum,“ segir Katrín í færslu sinni á síðunni Amare.is […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *