Áhrifavaldar og hið fræga “#samstarf”

Í gegnum tíðina hef ég fylgt þónokkrum áhrifavöldum, hvort sem það hefur verið til þess að fá þrifaráð, heimilis- eða tískuinnblástur, uppskriftir eða bara af því að mér fannst aðilinn skemmtilegur. Ég viðurkenni alveg að mögulega var ég að eyða of miklum tíma í að hlusta á einhvern annann tala og taka óbeint þátt í lífi þess aðila.

En núna í desember fékk ég meira en nóg. Það var varla hægt að skoða neitt án þess að vera drekkt í flóði af „#samstarf“ eða „í samstarfi við þennann…“. Ég áttaði mig svo allt í einu á því að ég var að eyða tímanum mínum, þessum dýrmæta tíma sem ég á með fjölskyldunni, í það eitt að horfa á endalaust af auglýsingum fyrir einhverjar vörur sem mig hvorki vantaði né hafði áhuga á.
Þetta var svolítið eins og köld tuska í andlitið og mér leið eins og ég hefði rambað út úr einhverri andlegri þoku. Ég tók mig til og eyddi nánast öllum áhrifavöldum af snapchat og þónokkrum af instagram, um leið og einhver byrjaði að tala um samstarf var þeim umsvifalaust eytt út.

Þessi hreinsun gerði svo ótrúlega mikið fyrir mig, bæði var þetta löngu farið að fara í taugarnar á mér og eins fannst mér ég finna mun minni þörf að eignast einhvern óþarfa.

Auglýsingar á samfélagsmiðlum í gegnum áhrifavalda geta í sjálfu sér verið ágætar, mögulega er fyrirtækið nýtt og spennandi og vill koma sér á framfæri. Þá er upplagt að nýta sér þessa leið, hún er ódýr og skilar sér beint á mögulegan markhóp. En að mínu mati er þetta orðið hálf absúrd þegar að áhrifavaldurinn er sjálfur farinn að leita uppi samstarf eða er farinn að fara í samstarf sem er svo gott sem óþarft fyrir báða aðila, t.d. með bleijur, jólasteik eða parket. Það þarf enginn að auglýsa fyrir mér matvöru eða bleijur, eins dytti mér aldrei í hug að kaupa mér gólfefni á heimilið bara af því að einhver aðili mælir svo mikið með því, sami aðili og fékk það gefins eða fékk borgað fyrir að tala um það. Sama hversu hreinn og beinn þú ert þá er þitt álit alltaf litað af því að þú fékkst hlutinn gefins eða á afslætti eða hvernig sem það virkar.

Mögulega er ég að skjóta mig í fótinn hérna, verandi hér á þessum miðli. Heldur get ég ekki neitað því að kannski hefði ég líka gleymt mér algjörlega í “samstarfi” ef ég hefði fengið færi á því. Ég vona samt ekki, ég er sjálf að reyna að slaka á neyslu og að verða að eiga allt og kaupa allt og langar til að hvetja aðra til þess að gera það sama.

Nýtum það sem við eigum, eyðum peningunum okkar í eitthvað sem gefur okkur eitthvað til baka og notum tímann sem við eigum með fjölskyldunni.

Ást og friður

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *