Áttu þau með sama manninum?

Í samræðum í dag eru fastir „ísbrjótar“ við hvert tilefni. Þú kynnir kærastann þinn og færð spurninguna „Hvað hafið þið verið lengi saman?“. Þú klínir óléttubumbu framan í gamlan skólafélaga og þarft þá að svara „Hversu langt ertu komin?“ Ef þú lendir í samræðum um húsnæði þá spyrð þú eða færð spurninguna „Áttu eða ertu að leigja?“. Þetta eru eðlilegar spurningar til þess að byrja samræður, lengja þær eða sýna áhuga. Allt gott og gilt. Það er ekki endalaust hægt að túlka veðrið fyrir öllum. En suma ísbrjóta má alveg bræða úr sögunni. Til dæmis þann sem fylgir óhikað með þegar þú segir aðila að þú eigir tvö eða fleiri börn. „Áttu þau með sama manninum?“

Ég á þrjú börn.

Ég á þrjá barnsfeður.

Ég virðist vera skyldug til þess að greina frá því við alla sem ég voga mér að lenda í samræðum við. Og yfirleitt eru þetta upplýsingar sem koma fram við fyrstu kynni, því þegar þú ert að segja nýrri manneskju frá þér þá sleppir þú ekki mikilvægasta partinum af þér – börnunum sem þú komst í heiminn og ert að verða vitstola við að ala upp. Og þá kemstu ekki hjá því að svara þessu.

Ég geri mér grein fyrir því að jafnvel í flóru hinna ýmsu fjölskyldumynstra landsins þá hallast ég yfir á öfgaskalann en ég tek það sterkt fram að ég skammast mín ekki fyrir þessa synd mína, að bera ávöxt margra manna. En miðað við viðbrögð svo margra, ætti ég greinilega að gera það. Ég hef þó útrýmt þessum viðbrögðum í mínu tilfelli. Mitt svar er alltaf: „Neineinei, þrjú börn og þrír feður. Ég er sko að safna.“
Fólk veit ekki hvað á að gera við þetta svar svo það er ekki lengi að leita í næsta ísbrjót.

Ég fór þó í gegnum erfiðar hugsanir þegar ég varð ólétt af yngsta barninu mínu, hvað fólk myndi segja. Ég var hrædd um sögusagnir, ég skammaðist mín. Við erum nefnilega svo fljót að dæma aðra og mynda okkur skoðun á fólki þegar við heyrum ákveðnar staðreyndir um það.
Þá er gott að eiga góða að. Yndisleg frænka mín spurði mig hvort að það væri sanngjarnt gagnvart mér, og öllum öðrum konum í sömu stöðu, að þurfa að hætta að eiga börn, neita nýjum maka um barn, bara af því að sambandið gekk ekki upp með þeim síðasta? Það er ekki erfitt að svara þessu. Og með þessum orðum flaug skömmin og áhyggjurnar út um gluggann. TAKK HELENA!

Spurningin mín er samt : Af hverju þurfum við að vita svona persónuleg atriði hjá fólki sem við þekkjum ekki? Hvenær varð það eðlilegt að spyrja að því hvort að börnin séu getin af sama sæðisgjafa? Er þá ekki alveg eins eðlilegt að henda fjölda bólfélaga yfir ævina með í jöfnuna?
Spyrjið frekar að því hversu gamalt barnið er, hvernig því gangi í skólanum, hvort það æfi íþróttir. Haldið samtalinu fljótandi með ykkar eigin börnum, æskusögum ykkar, nú eða bara eitthverju allt öðru en börnum. Það er svo margt til að tala um. Höldum typpunum úti fyrir það.

Punktur.

P.s. Þetta eintak gegnir stöðunni í dag:

You may also like...

9 Responses

 1. Brynhildur Johannsdottir says:

  Tú ert ædi 😁❤️👍👍👍

 2. Íris Lind Verudóttir says:

  Elsku yndislega Katrín mín. Þú ert algjörlega one of a kind og þannig vil ég hafa þig. Þú ert algjör snillingur og snilldar penni. Áfram þú. Lots of love :*

 3. Hildur. K.O says:

  Yndislegust frá byrjun til enda.
  Ert svo búin að fá mig til að byrja fylgjast aftur með bloggum.
  <3 <3 <3

 4. Sonia Eðvaldsdóttir says:

  Ég á líka 3 með þrem og skammast mín ekkert fyrir það .
  Ég hef stundum svarað fólki þannig að þetta sé ekki leggjandi á einn mann😂
  Ef þetta er undarlegt fyrir fólki hvað þá með mennina sem eiga börn út um allt og hafa ekki tölu á því en það er 2018 og ekki til eitthvað sem heitir venjulegt fjölskyldumunstur☺

  • amare.is says:

   Gott mótsvar!
   Það er þá hægt að fara út i þá sálma með menn og konur, double standards og allt það. Menn mega sofa hjá mörgum og eru folar, en konur druslur. Sama gildir kannski með menn sem “planta börnum” um allt, og konur sem ala upp börn margra manna…

 1. November 5, 2018

  […] „Yfirleitt eru þetta upplýsingar sem koma fram við fyrstu kynni því þegar þú ert að segja nýrri manneskju frá þér þá sleppir þú ekki mikilvægasta partinum af þér. Börnunum sem þú komst í heiminn og ert að verða vitstola við að ala upp. Þá kemst þú ekki hjá því að svara þessu,“ segir Katrín í færslu sinni á síðunni Amare. […]

 2. November 5, 2018

  […] „Yfirleitt eru þetta upplýsingar sem koma fram við fyrstu kynni því þegar þú ert að segja nýrri manneskju frá þér þá sleppir þú ekki mikilvægasta partinum af þér. Börnunum sem þú komst í heiminn og ert að verða vitstola við að ala upp. Þá kemst þú ekki hjá því að svara þessu,“ segir Katrín í færslu sinni á síðunni Amare. […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *