Bananahafraklattar

Við fjölskyldan erum búin að liggja í 2 vikur í veikindum, báðir krakkarnir og svo ég. Þegar krakkarnir voru lasnir var ég endalaust að reyna að finna upp á einhverju nýju fyrir þau, ég var búin að baka gamla góða bananabrauðið en krakkarnir voru greinilega komin með leið á því svo ég ákvað að reyna að finna nýja leið til að nýta gömlu bananana.

Við erum mikið fyrir hafraklatta svo ég ákvað að prófa að blanda bönunum út í, það heppnaðist alveg dásamlega og krakkarnir eru enn að kjamsa á þessum frábæru kökum.

Mig langaði að deila uppskriftinni með ykkur.

170gr. mjúkt smjör
1/2 bolli sykur
1 bolli púðursykur
1 egg
1 tsk vanilludropar
2 vel þroskaðir bananar
1 og 1/2 bolli hveiti
1 og 1/2 tsk kanill
1 tsk matarsódi
1/2 tsk múskat
2 tsk maizenamjöl
3 bollar haframjöl
Súkkulaði ef bakarinn er í sparistuði, ég notaði ca. 1/2 bolla

Smjör, sykur og púðursykur er þeytt saman þar til létt og ljóst. Bætið þá við eggi, vanilludropum og bönunum og blandið vel saman.

Svo er hveiti, kanil, matarsóda, múskat og maizenamjöli og blandið vel saman. Að lokum er höfrum og súkkulaði bætt við og hrært þar til allt er blandað.

Mótið litlar kúlur úr deignu með skeið og raðið á bökunarplötu. Passið að hafa svolítið bil á milli þar sem kökurnar dreifa úr sér. Þær eru svo bakaðar í 9-12 mín við 180°C.

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *