Barnabókaflóð í Norræna húsinu

Ég reyni mitt besta til að gera sem mest með börnunum mínum, svona á meðan þau nenna mér ennþá. Við eigum auðvitað nóg af kósý dögum heima en þegar við rífum okkur úr náttfötunum og leggjum í hann þá finnst mér ofboðslega gaman að gera „öðruvísi“ hluti, en ekki sömu rútínuna hverja helgi; sund, bíó, ísbíltúr, heimsókn til ömmu og afa.

Síðasta sunnudag fór ég með yngri börnin tvö og eitt auka á virkilega skemmtilega sýningu sem skipulögð er af rithöfundinum Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur.

Barnabókaflóðið í Norræna húsinu.

Það er ekkert leyndarmál að ég er mikill unnandi barnabóka. Það heillar mig svo að barnabækur þurfi ekki að spila eftir ákveðnum reglum, því að allt getur gerst. Himininn má vera rauður og grasið má vera gert úr lakkrís, svín tala og blóm labba. Svo það var mikið ævintýri fyrir mig líka að fara á þessa sýningu.

Þetta er ótrúlega skemmtileg gagnvirk sýning fyrir börn á aldrinum 5 – 11 ára (eða fullorðna sem neita að fullorðnast, eins og ég). Gert er ráð fyrir virkri þátttöku gesta og er hálfgerður ratleikur að fara frá einu svæði yfir á annað. Talað er um að barnabækur byggi brýr og ferðalangarnir á sýningunni búa sér til vegabréf sem þeir stimpla í á hverjum viðkomustað eftir að hafa lokið verkefni, t.d. að taka þátt í að skapa stórborgarpúsl, raða landanöfnum á heimskort og búa til ljóð úr óvæntum orðum sem þau draga úr potti.

Það var tvennt sem mér þótti standa skemmtilega upp úr á sýningunni. Annað var stórt víkingaskip sem börnin geta tyllt sér í og dundað sér við að veiða fiska með veiðistöngum, og seinna var myrkraherbergi þar sem hægt var að tylla sér á mjúka púða og horfa á stórkostlegar myndir úr geimnum á stórum skjá. En Sævar Helgi, eða Stjörnu Sævar, var á staðnum einmitt þennan dag og kenndi krökkum skemmtilegar staðreyndir um stjörnumerkin og gaf þeim tækifæri til að búa til sín eigin stjörnumerki. (Strákurinn minn og vinur hans nýttu það tækifæri að sjálfsögðu í koddaslag inni í myrkraherberginu).

Veggirnir eru fagurlega handmálaðir og á hverjum vegg er textabútur úr ákveðinni bók. Sumir textarnir grípa mann svo rosalega, t.d. þessi hér fyrir neðan sem lýsir því að bækur geti borið þig hvert sem er og breytt þér í hvað sem er á meðan þú ert að lesa. Það er alveg vitað að Þórarinn Eldjárn er gersemi.

Sýningin opnaði 29. september og stendur til 30. apríl og þið finnið hana í kjallara Norræna hússins. Aðgangur er ókeypis!! Opnunartími er frá 14 til 18 á virkum dögum og 10 – 17 um helgar.


Ég mæli eindregið með henni og þið verðið líka svo montin með ykkur sem foreldrar að hafa verið extra menningarleg með börnunum ykkar!

Alltílæ, bless.

 

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *