Barnið,  Jóhanna María,  Lífið

Barnið er fætt og hvað svo?

Það er mikið fjallað um hlutina sem konur ganga í gegnum á meðgöngu og í fæðingunni sjálfri. En þegar því ferli er lokið hvað tekur þá við? Það eru margir hlutir sem koma þar við sögu sem ég hafði ekki hugmynd um þegar ég var ólétt í fyrsta skipti.

Það eru kannski ekki allir sem átta sig almennilega á því hvað píkan gengur í gegnum þegar fæðing á sér stað, ég gerði það svo sannarlega ekki! En málið er að píkan hún bókstaflega snýst við, við það að koma barninu í heiminn og er mjög aum viðkomu í stundum nokkrar vikur á eftir. Ég gat til að mynda ekki setið almennilega í heila viku án þess að finna til, en það er eðlilegt og lagast á endanum. Eins er algengt að konur fái gyllinæð á meðgöngu sem yfirleitt jafnar sig á einhverjum dögum/vikum eftir fæðinguna.

Sumar konur rifna eða eru klipptar í fæðingunni til þess að barnið komist út og þá þarf að sauma, saumarnir geta valdið óþægindum sérstaklega þegar sárið byrjar að gróa og maður fær tilheyrandi kláða ofan í píkubjúginn, gyllinæðina og úthreinsunina. Í sumum tilfellum þarf að fjarlægja saumana, það þurfti t.d. að gera það hjá mér og það var vægast sagt óþægilegt. Sem leiðir huga minn að því hvað það var hrikalega erfitt að pissa og hafa hægðir nokkra daga eftir fæðinguna, ég gat til að mynda ekki pissað fyrr en einhverjum klukkutímum eftir fæðinguna vegna verkja. Ég sat bókstaflega á dollunni og lét buna kalt vatn á píkuna mína til þess að deyfa svæðið á meðan ég gerði þarfir mínar í nokkra daga eftir fæðinguna.

Sumar konur lenda í því að halda ekki þvagi, lofti eða hægðum fyrst eftir fæðinguna og því er mikilvægt að fyrirbyggja að það gerist með því að stunda grindarbotnsæfingar (Rannveig B. Ragnarsdóttir, 2004). Það getur verið mjög vandræðalegt að hreinlega pissa á sig, látið mig þekkja það!

Fyrstu dagana efir fæðingu finna konur gjarnan mikla samdrætti í leginu þar sem að legið er að draga sig saman eftir fæðinguna, þá sérstaklega þegar barnið er á brjósti því þá myndast oxytocin hormón sem veldur samdráttum. En það tekur legið u.þ.b. sex vikur að minnka endanlega. Þessir verkir geta verið töluverðir en hægt er minnka þá með því að nota m.a. heita bakstra eða taka inn verkjalyf (Rannveig B. Ragnarsdóttir, 2004).

Úthreinsun á sér stað í nokkrar vikur eftir fæðinguna, oftast varir hún í kringum 4-6 vikur. Um er að ræða ákveðna hreinsun þar sem að legið er að hreinsa blóð, slím og vefjarestar (Steinunn H.Blöndal, 2007). Hjá mér varði úthreinsunin í næstum fimm vikur með tilheyrandi blóði, blóðkögglum, túrverkjum og vanlíðan.

Ekki er ráðlagt að stunda kynlíf eða fara í sund/bað á meðan úthreinsun stendur. En sumar konur upplifa að langa alls ekkert í kynlíf þó svo að úthreinsun sé lokið, líkami konunnar er ekki eins og hann var fyrir getnað og því getur sjálfsálit verið minnkað. Eins getur konum eða maka þótt óþægilegt að stunda kynlíf þegar barnið sefur í sama herbergi og foreldrarnir. Það er ekkert sexy við það að hafa grátandi barn við hliðina á rúminu sínu. Því getur það tekið tíma og þolinmæði að koma „hjónalífinu“ aftur í gang.

Þrátt fyrir allt gera konur þetta aftur og aftur, enda er þetta ferli allt þess virði þegar öllu er á botninn hvolft.

 

Sólveig Birna fædd 15.10.12 og er næsta kríli væntanlegt 29.07.18 (vonandi fyrr samt).

 

Heimildir sem ég notaði mér til aðstoðar:

Rannveig B. Ragnarsdóttir, (2004). Líkamlegar breytingar. Sótt af  http://www.ljosmodir.is/saengurlega/likamlegar-breytingar

Steinunn H.Blöndal. (2007). Úthreinsun. Sótt af http://www.ljosmodir.is/spurt-og-svarad/nanar?id=3974

—Þar til næst <3

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *