Brúðarkjólamátun

  Í hjarta mér er ég prinsessa, ég elska kjóla og allt sem glitrar og frá því að ég var krakki hafði mig dreymt um að máta brúðarkjóla eins og í bíómyndum. Þegar kom að undirbúningnum fyrir brúðkaupið var því brúðarkjólamátun eitt af því fyrsta sem sett var á lista.

Ég eyddi miklum tíma í að skoða kjóla hér og þar um netið og er komin með fullar möppur af kjólamyndum á tölvuna hjá mér. Ég ákvað að fara í mátun til hennar Berglindar hjá Begga bridals. 

Ég sá sko alls ekki eftir því, frá fyrstu skilaboðum sem ég sendi henni var hún ekkert nema yndisleg og hlý. Ég fékk tíma í mátun með ca. viku fyrirvara, en það þarf að mér skilst alltaf að panta tíma í brúðarkjólamátanir þar sem búðin er lokuð á meðan henni stendur.
Fyrir mátunina fékk ég svo sendar upplýsingar um mátunina og hvernig best væri að undirbúa sig fyrir hana.

Ég mætti í mátunina með mömmu mína, systur og mágkonu sem álitsgjafa. Berglind tók einstaklega vel á móti okkur, bauð upp á konfekt og kampavín. Álitsgjafarnir komu sér vel fyrir í kósý horninu á búðinni á meðan Berglind sýndi mér þá kjóla sem voru í boði og fékk hugmynd um það hvað ég hafði í huga. Við völdum svo allskonar samsetningar og kjóla fyrir mig og fórum með þá í mátunarrýmið.

Þar var ég sett í “búning” undir kjólana, aðhaldssamfellu og hælaskó. Þá var ég tilbúin að byrja prinsessu-tímann minn.

Berglind hjálpaði mér í kjólana, setti títuprjóna og nælur og stilli þá af þannig að þeir myndu mátast sem best. Svo spjölluðum um sniðin og útlitið, Berglind kom með fylgihluti og annað til að ná góðu heildar-útliti og kjólarnir dæmdir af eða á. Eftir fyrsta hring af kjólum vorum við komnar með snið sem hentaði mínu vaxtalagi fullkomlega.

Þá tók við seinni hringurinn þar sem að við prófuðum margskonar samsetningar í því sniði og upp úr stóðu nokkrir kjólar sem voru alveg fullkomnir.
Mágkona mín sá um að mynda þetta allt saman bak og fyrir svo ég gæti séð mig sjálf og hugsað þetta.

Þetta tók um 2 tíma og borgaði ég 6.500 kr. fyrir sem myndu svo fara upp í kjól ef ég ákveð að kaupa hann hjá Berglindi.

Ég mæli svo mikið með því að verðandi brúðir taki sér tíma og fari að máta. Það kom mér mikið á óvart hvað hentaði mér og hvað ekki, til dæmis var eitt snið sem ég var alveg handviss um að hentaði mér engan veginn. Svo kom í ljós að það klæddi mig eiginlega langbest. Eins er þetta líka bara svolítil stemming að gera þetta með vinkonum og fjölskyldu, það er ákveðið sjokk að sjá sjálfa sig í brúðarkjól og þetta verður allt eitthvað svo raunverulegt.
Þetta er allavega ekki tími eða peningur sem ég sé eftir og væri alveg til í að gera þetta aftur. 

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *