Ég skammast mín

Ísland er snobbland. Ekkert leyndarmál. Ekkert að því. Þýðir í raun bara að við erum metnaðarfull og stefnum hátt í lífinu. En það er erfitt að búa á Snobblandi þegar þú hefur ekki fetað beinu brautina frá A til Ö. Tekið hlutina í „réttri röð“. Sú röð væri sem sagt: Háskólamenntun, húskaup, barneignir. En mjög mörg okkar dembdum okkur í barneignirnar fyrst, svo að það er ekki hlaupið að því að kaupa hús og eins og í mínu tilfelli, nánast ómögulegt að velja háskólanám sem hentar, því með börn er ekki hægt að prófa eina önn í þessu og aðra í hinu. Finnst mér um mig.

Ef það er ekki augljóst þá er ég ekki háskólamenntaður einstaklingur. Sem þýðir að ég sinni ekki starfi sem er skrifað með gylltu og sveipað ljóma á ferilskránni.

Ég vinn hjá Rúmfatalagernum.

Ég passa mig alltaf, ef ég segi fólki yfir höfuð hvar ég vinn, að gera meira úr starfi mínu. Ég er sko DEILDARSTJÓRI, og ég sé sko um ALLA ÞESSA DEILD. Og svo skrifa ég barnabækur (sagt í þunnum hljóðum, eins og það sé bara ekkert). Ég nefnilega skammast mín fyrir að vera ekki komin lengra í lífinu. Að vera ekki „orðin eitthvað“.

Já, ég veit að ég er mamma. Og það er hellings starf, og það mikilvægasta. En þið vitið hvað ég á við.
Jú, ég er mamma. En ég vil ekki að það eitt og sér skilgreini mig. Ég þjáist af sömu snobbpöddu og aðrir Íslendingar, að ég vilji áorka eitthverju mikilvægu, og helst verða heimsfræg á Íslandi.

Á daglegu kvöldvafri mínu um fésbókina datt ég á þessa mynd af Stan Lee, sem var að kveðja þennan heim, og þessi orð hans náðu mér inn að beini.

I used to be embarrassed because I was just a comic-book writer while other people were building bridges or going to medical careers. And then I began to realize: entertainment is one of the most important things in people´s lives. Without it they might go off the deep end. I feel that if you´re able to entertain people, you´re doing a good thing.

Jafnvel meistari Stan hvarf í þá holu að skammast sín og gera lítið úr sér og sínum verkum. VIÐ GERUM ÞETTA ÖLL! Er þetta bara prentað í mennsk gen, að geta ekki staðið beinn með sjálfum sér?

Allar vinnur eru mikilvægar; allt frá kassastarfsmönnum verslanna, til kennara og lækna. Allir hæfileikar eru mikilvægir. Öll verk einstakra manneskja eru mikilvæg. GEFUM HEIMINUM af okkur, í stað þess að varlega sýna verk okkar og snilli og vonast til þess að heimurinn SAMÞYKKI OKKUR eða það sem verra er, fela okkur.

Því þegar allt er á botninn hvolft ..

 

P.s. Endilega athugið með bókina mína Mömmugull í öllum verslunum Eymundsson, Mál & Menningu OG Rúmfatalagernum Smáratorgi (sem er mjög fínn vinnustaður). Virkilega einlæg og skemmtileg bók, með mikilvægan boðskap. Hér er facebook síða bókarinnar, Mömmugull.

 

You may also like...

2 Responses

  1. Flott færsla og svo sönn. Það myndu t.d. fæstir vilja mæta í vinnuna ef skúringakonan kæmi aldrei til að þrífa t.d. klósettin. En svo er líka fordómar í öðrum sem gera manni erfitt fyrir. Èg sagði stollt þegar fólk spurði mig hvað gerir þú að ég væri mamma og svarið var og gerirðu ekkert annað?

  2. Margrét Sævarsdótti says:

    Oh lenti einmitt í smá (sjálfs)shame atriði í Bónus um daginn. Hitti fyrrverandi vinnufélaga (hjón) sem fetuðu svo sannarlega beinu brautina, þau spurðu bara “og hvað ertu að gera” Ég “eeh, ekkert.. er að reyna að klára ritgerð (eins og sl. 4 ár) og svo var barnið mikið veikt svo það lengdist í fæðingarorlofinu -en ég er að skoða vinnur! Svo var ég í æðahnútaaðgerð”… S.s allt týnt til en samt leið mér eins og skít. Merkilegt.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *