Jóhanna María,  Lífið,  Meðganga

Engin meðganga, fæðing og sængurlega er eins

Jæja þá er komið að þessu, ég er búin að hugsa um þetta blogg í fjóra mánuði,  hvernig sé best að koma því frá mér en ég held að það hafi ekkert upp á sig að bíða lengur. En hér ber ég saman fyrri og seinni reynslu mína af meðgöngu, fæðingu og sængurlegu.

 

Fyrri meðgangan 2012

Á minni fyrri meðgöngu var andlega hliðin mín í molum, sjálfstraustið var ekkert, ég var stöðugt að velta því fyrir mér hvað öðrum finndist um mig og sjálfsvígshugsanir gerðu vart við sig af og til .. og já mér leið … ég held að ekkert orð komist nálægt því til að lýsa því hversu illa mér leið. Það voru ýmis vandamál ef svo má að orði komast sem ég hafði á herðunum sem ég hafði ekki unnið úr má þá m.a. nefna einelti úr grunnskóla, erfiðar heimilisaðstæður og bílveltu sem ég lenti í árið 2011 í kjölfar þess var ég sama ár greind með áfallastreyturöskun og sett á þunglyndislyf.

Á meðgöngunni fór ég tvisvar sinnum inn á geðdeild Landspítalans því já hugurinn var ekki að vinna með mér. Ingólfur (maðurinn minn) stóð með mér eins og stytta í gegnum allt þetta havarí og var meira að segja með mér á spítalanum. Skömmin við það að fara inn á geðdeild verandi ófrísk var svo mikil að ég sagði engum frá því ekki einu sinni okkar nánustu.

Ég er sett 25.október 2012, ég lendi í aftanákeyrslu í lok ágúst á leið minni til geðlæknis, pælið í því! Er hægt að vera óheppnari í lífinu? Eftir þennan árekstur fer að blæða úr legöngunum og ég bruna beint upp á sjúkrahús, já mér datt ekki einu sinni í hug að hringja á sjúkrabíl hausinn var alveg í ruglinu.. en jæja sem betur fer var þetta saklaus blæðing og allt í góðu með bumbubúann. En eftir þennan árekstur er ég stöðugt að fara af stað í fæðingu, ég var nánast vikulegur gestur á sjúkrahúsið á Akranesi þar sem ég fékk sprautur og lyf til þess að stoppa fæðinguna. Stundum var lá ég inni yfir nótt. Jæja tminn leið og föstudaginn 12 október fæ ég verki enn og aftur og við Ingólfur förum upp á spítala þar sem ég er enn og aftur stoppuð af, ég er stöðugt að fara af stað yfir alla helgina. Á sunnudagskvöldinu þann 14 október fer ég fram á það að vera ekki stoppuð af, þetta gangi ekki lengur og að barnið sé bara hreinlega að koma í heiminn.

 

34 vikur, 2012.

 

Seinni meðgangan 2018

Jæja.. sex árum síðar. Hvar skal byrja, meðgangan gekk eins og í sögu! Hreint út sagt. Það voru engin vandamál eða sjúkrahúsinnlagnir. Ég fékk að vísu hressandi fyrirvaraverki síðustu vikurnar en það er ósköp eðlilegt. Mér fannst ég hrikalega sexy með þessa flottu bumbu og með allt á hreinu! Ég var að vísu orðin svolítið óþreygjufull að bíða eftir krakkanum því ég var að sjálfsögðu búin að ákveða að Selma myndi mæta 10 dögum fyrir settan dag líkt og Sólveig gerði en hún Selma lét aðeins bíða eftir sér. Settur dagur var 29.júlí. Það var að vísu svolítið krefjandi að vera með Sólveigu Birnu ein heima í sumarfríi síðustu dagana. En andlega heilsan var upp á 9,5 sem gerist nú varla mikið betra á meðgöngu, fæðingin fór í gang 2 dögum eftir settan dag.

 

40 vikur, 2018

 

Fæðingin 2012

Klukkan er 19.00 þann 14.október ég er með óreglulega verki, á miðnætti tekur ljósmóðirin þá ákvörðun að sprengja belginn, þá skyndilega hættu verkirnir svo mér var sagt að fara og labba upp og niður stigana sem ég gerði með herkjum. Enn bólaði ekkert á verkjum svo ég fékk undra nefsprey og þá BÚMM komu verkirnir margfalt til baka. Útvíkkunin kom smátt og smátt með meiri og meiri verkjum ég var orðin gjörsamlega uppgefin! Rétt fyrir klukkan 07.00 hringdi ég í mömmu og bað hana um að koma til okkar, þegar mamma kom bað ég síðan um mænudeyfingu en það heppnaðist ekki betur en svo í fyrstu tilraun að það leið yfir mig og ég vaknaði við það að svæfingarlæknirinn og mamma voru að slá mig í andlitið. Taka tvö gekk eins og smurt ég náði aðeins að gleyma mér þar rembingsþörfin kom og hún sko KOM! Klukkan 10.35 mætti Sólveig Birna í heiminn 49 cm og 3010 gr.

 

Fæðingin 2018

Ég er að vísu búin að skrifa fæðingarsöguna mína (Hér) en ég ætla að segja ykkur í stuttu máli hvernig þetta var. Ég vaknaði snemma morguns þann 31.júlí með verki. Við vorum komin á sjúkrahúsið á Akranesi rétt fyrir klukkan 09.00, allt gekk eins og í sögu við spjölluðum saman um daginn og veginn, Ingólfur las fyrir mig brandara og við skoðuðum nöfn á dömuna sem var að gera sig klára í heiminn. Útvíkkun var lokið kl 13.00, klukkan 13.04 fór vatnið og daman mætti í heiminn klukkan 13.16. Hún kom sem sagt með látum þegar hún kom og engin inngrip voru í fæðingunni. Vá þetta var það skemmtilegasta sem ég hef gert og svo auðvelt miðað við fæðingu Sólveigar! Selma var 3642 gr og 51 cm.

 

Já eitt enn.. fæðingin var öll tekin upp og sýnd í Sjónvarpi Símans í þáttunum Líf Kviknar, það hefði ég aldrei tekið í mál í fyrri fæðingu. Mér fannst þetta kjörið tækifæri til fyrir okkur til þess að eiga þessa fallegu minningu á rafrænu formi og bara VÁ VÁ VÁ hvað það er fallegt! Þeir sem stóðu að þáttunum gerðu þetta allt svo fallegt. Ég bara vissi ekki að það væri hægt að gera mext ósexy hlut ævi minnar svona fallegan og það á sjónvarpsskjá! Ég hafði sett mér það markmið að taka tækifærum þegar þau gefast svo ég ákvað að taka þessu tækifæri fagnandi og nei þið sem eruð að hugsa ,,hvað ætli hún hafi fengið mikið greitt fyrir þetta?“ Þá fékk ég ekki krónu. Andrea höfundur Líf kviknar var svo dásamleg að gefa mér bókina Kviknar í lok meðgöngunnar. Bókin er BTW ótrúlega falleg, fróðleg og skemmtileg enda las ég hana frá A-Z á 3 dögum.

 

Sængurlegan 2012

Sólveig Birna þurfti ábót frá fyrsta degi því hún var á mörkum þess að fá gulu og ljósmæðurnar á sjúkrahúsinu töldu það fyrir bestu. Ég setti barnið að sjálfsögðu á brjóst ég setti hana sko á BRJÓST! Hún var á brjósti 24/7 ég var helaum í geirvörtunum með blæðandi sár, endalausa stálma og vöðvabólgu. Ég grét meira en barnið því það kom svo lítil mjólk. Ég man eftir því að fyrstu vikuna þurftum við Ingólfur að gefa Sólveigu á 2 klst fresti allan sólarhringinn, ég vaknaði einu sinni við það að Ingólfur var að setja Sólveigu á brjóst um miðja nótt. Ég gat bara ekki fyrir mitt litla líf vaknað til þess að gefa barninu mínu að drekka. Svo loksins fengum við LEYFI til að láta líða lengri tíma á milli gjafa á næturnar.

Sólveig Birna var algjör pabbastelpa frá degi eitt, hún sofnaði hjá honum á kvöldin, hann sá meira um hana á næturnar þrátt fyrir að vera farin að vinna og ég heima með hana í fæðingarorlofi. Ég var að vísu í skóla líka en samt sem áður heima. Þegar Ingólfur kom heim úr vinnunni var mér létt og hún fór beint í fang pabba síns. Mér fannst mjög erfitt að vera með lítið barn og mér leið svo illa, að sjálfsögðu skynjaði Sólveig mín að mér leið illa svo hún var alltaf jafn glöð að sjá pabba sinn.

Pressan frá heilbrigðisstarfsfólki var svo gígantísk ég átti að setja barnið oftar á brjóst og bera bara krem á mig ,það áttu sko að vera allra meina bót. Ég drakk mjólkuraukandi te, tók töflur, drakk malt og bjór allt til þess að reyna að auka mjólkina. Þegar Sólveig Birna sá pelann ljómaði hún, en mér leið ömurlega því ég gat ekki veitt barninu mínu það sem væri BEST fyrir það. Ég þrjóskaðist við brjóstagjöfina í tvo mánuði, tveir mánuðir af vöðvabólgu, blæðandi nipplum og tárum. Þá var ég loksins orðin nógu sterk til þess að gefa skít í ráð heilbrigðisstarfsfólks og gefa barninu eingöngu pela á daginn. Ég gaf henni brjóst kvöld og morgna í einn mánuð til viðbótar þar til Sólveig hafnaði brjóstinu og valdi pelann framyfir brjóstið.

 

Sólveig Birna

 

Sængurlegan 2018

Nú eru að verða fjórir mánuðir síðan Selma kom í heiminn og hefur sængurlegan gengið mjög vel. Selma hefur ekki verið í mikilli rútínu síðan hún fæddist en hún sefur vel á næturnar sem er fyrir öllu. Brjóstagjöfin gengur eins og í sögu og er Selma staðráðin í því að láta brjóstagjöfina ganga 110% hún vill hvorki pela né snuð ólíkt systur sinni sem ljómaði þegar hún sá pelann. Selma verður bara sár og grætur þegar ég tek upp pelann. Mér hefur aldrei liðið betur andlega. Selma er mikil mömmumús, hún sofnar hjá mér á kvöldin og hún ljómar þegar ég kem ef ég voga mér að bregða mér af bæ (ekki í meira en 2 klst samt því hún er á brjósti!).

 

Selma Jóhanna

 

Eins og sjá má eru upplifanir mínar af meðgöngu, fæðingu og sængurlegu Sólveigar og Selmu eins og svart og hvítt. Ég tengi það fyrst og fremst við andlega heilsu. Ég var aldrei greind með meðgöngu eða fæðingarþunglindi þegar ég var ófrísk af Sólveigu eða í sængurlegunni með hana þó svo að ég hafi klárlega verið með bullandi meðgöngu og fæðingarþunglindi.

Systraástin er svo dýrmæt, Sólveig Birna elskar systur sína út í eitt og er ofboðslega góð við hana. Selma er mjög hrifin af stóru systur sinni og dáist að henni endalaust. Mér gengur vel eiginlega bara vonum framar þó svo að ég eigi slæma daga hér og þar eins og allir aðrir. Ég er að klára Meistara nám við Háskóla Íslands og stefni á útskrift næsta sumar og Ingólfur stendur eins og klettur mér við hlið eins og hann hefur ávalt gert.

 

Systurnar

 

En hvað breyttist á þessum sex árum?

Það var ekki fyrr en árið 2014 sem ég tók virkilega þá ákvörðun að leyta mér hjálpar varðandi andlegu heilsuna mína. Ég kynntist yndislegum markþjálfa henni Lindu sem snéri hjálpaði mér að snúa lífi mínu til hins betra, ég hætti fljótlega á þunglyndislyfjum og mér fór að líða betur eftir aðeins nokkrar vikur. Ég get ekki ýmindað mér hvar ég væri ef ég hefði ekki kynnst henni. Ég fór í einstaklingsviðtöl til hennar og eftir nokkra mánuði fór Ingólfur að koma með mér, því allt mitt havarí hafði mestu áhrifin á hann og við urðum að vinna úr því saman sem og við gerðum.

Hafdís ljósmóðir og klappstýra með meiru á allan heiðurinn af því að hafa tekið á móti báðum stúlkunum okkar Ingólfs. Þvílikt gull sem hún er! En hún er einnig mikill talsmaður þess að fara í gegnum fyrri reynslu af fæðingu sem skiptir svo miklu máli fyrir andlegu hliðina. Mér þótti alla vega mjög gott að rifja upp fæðingu Sólveigar og einnig að gera þennan samanburð á tveimur mjög svo ólíkum meðgöngum, fæðingum og sængurlegum.

–Þar til næst

Jóhanna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *