Barnið,  Jóhanna María,  Meðganga

Fæðingarsagan mín

Sjálfri finnst mér mjög gaman að lesa fæðingarsögur hjá öðrum svo mig langar til þess að deila minni með ykkur.

Settur dagur var 29.júlí, ég var með góða fyrirvaraverki frá viku 35, sem var stundum svolítið krefjandi verandi ein heima með fimm ára skvísu í sumarfríi. Ingó maðurinn minn var búin að ákveða að fara í fæðingarorlof frá fæðingardegi barns en ákvað að taka sumarfrí þar sem að ekki bólaði á barninu á settum degi, hann náði nú bara að vera einn dag í sumarfríi því mánudaginn 31.júlí um sjö vakna ég við kröftugan samdráttarverk. Ég lá slök áfram í rúminu, þegar verkur númer 3 kom þá ákvað ég að vekja manninn minn og við byrjuðum að taka tímann á milli verkja. Það voru um 14-15 mínútur á milli verkja svo við vorum ekkert að stressa okkur. Rétt fyrir klukkan átta voru verkirnir orðnir mun harðari og ég ákveð að hringja upp á deild. Við byrjuðum að taka til föt fyrir Sólveigu Birnu og hringdum í  tengdapabba, við fórum svo með Sólveigu í vinnuna til hans og brunuðum upp á Akranes, við vorum komin þangað rétt fyrir níu.

 

Á leiðinni á Akranes voru aðeins fimm mínútur á milli verkja, á leiðinni hringdi ég tvö símtöl í fyrsta lagi hringdi ég í ljósmóðurina mína Hafdísi, þar sem að hún ætlaði að taka á móti barninu og var hún svo yndisleg að koma úr sumarfríinu sínu til þess að vera með okkur í fæðingunni. Í öðru lagi hringdi ég í upptökumann frá Sagafilm þar sem að hann ætlaði að taka upp fæðinguna okkar fyrir nýja sjónvarpsþætti sem bera heitið Líf Kviknar þættirnir eru byggðir á bókinni Kviknar og verða þeir sýndir í haust hjá Sjónvarpi Símans.

 

Þegar við komum á Sjúkrahúsið á Akranesi fórum við beint inn á fæðingarstofu og komum okkur vel fyrir. Við spjölluðum á milli verkja, Ingó las fyrir mig brandara og við fléttum í gegnum öll íslensk kvenmannsnöfn hjá Hagstofunni sennilega í fjórða skipti þar sem að við vorum ekki búin að ákveða nafn á dömuna.

 

Tökumaðurinn var mættur til okkar rétt fyrir tíu og Hafdís ljósmóðir var komin til okkar nokkrum mínútum síðar. Þá loksins fékk ég það besta við það að eiga barn! Glaðloftið.

 

Ég hafði meira að segja vit á því að henda í eina eitur ferska mynd af mér með glaðloftið :´D.

 

Ég notaði glaðloftið af og til í hríðum, ég dillaði mér um á jógabolta og Ingó nuddaði á mér mjóbakið í hríðum. Ég fór síðan í bað, þegar ég kom upp úr baðinu ætlaði ég svo að setjast aftur á jógaboltann en gat það ekki! Það var svo mikill þrýstingur niður. Ég ákvað því að standa og hallaði mér fram á fæðingarrúmið sem var búið að hækka í efstu stöðu. Hafdís ljósmóðir hjálpaði mér að dilla mér til hliðar í hríðum og Ingó nuddaði mig og ýtti á þrýstipunkt sem er staðsettur á milli þumalfingurs og vísifingurs.

 

Þrýstipunkturinn, ég nota hann stundum þegar ég er til dæmis með hausverk. En mér fannst mjög gagnlegt að nota hann í fæðingunni, það hjálpaði mér að komast í gegnum hríðarnar.

 

Þegar útvíkkun var athuguð klukkan eitt, kom í ljós að útvíkkunin var búin, klukkan 13.04 fór vatnið og klukkan 13.16 var daman mætt í heiminn! Það liðu því aðeins um fjórir klukkutímar frá því að ég mætti á deildina og þar til daman var mætt. Fæðingin gekk vonum framar og mér leið mjög vel bæði andlega og líkamlega. Svo vel að ég hefði treyst mér í göngutúr strax eftir fæðingu. Ég er mjög stolt af sjálfri mér að hafa komist í gegnum fæðinguna án inngripa, ég var nú samt farin að öskra á mænudeyfingu um eitt leitið, en þá var það bara orðið alltof seint!
Þessi fæðing er mjög svo frábrugðin fyrri fæðingu, en ég stefni á að gera smá samanburð um mínar tvær fæðingar síðar.

 

Selma okkar <3

 

Hafdís ljósmóðir og Selma.

 

Fyrsti gesturinn á fæðingardeildina var Sólveig Birna eldri dóttir okkar, þegar hún kom hljóp ég (já ég hljóp) til hennar fram á gang, knúsaði hana í bak og fyrir og fylgdi henni að stofunni okkar.

 

 

*** Færslan er ekki kostuð ***

 

–Þar til næst

One Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *