Ferðalagið hefst

Jæja þá er komið að þessu.

Íbúð, bíll og 2 stk hamstrar eru komnir í pössun þannig að ég og sonurinn getum farið áhyggjulaus í frí…

Akkúrat núna þegar þessi færsla hefst sitjum við í dekri í Saga Launch og njótum lífsins. Ekki það að ég sé ógeð rík en ég var svo heppin að geta uppfært fyrir lítinn pening plús punkta og ég ákvað að dekstra smá við okkur. Ég verð nú eiginlega að segja sem betur fer eftir fjörið í gærkvöldi. Það var nefninlega um 9 leitið í gær sem ég fékk tilkynningu frá hótelinu sem við eigum að vera að gista á að vatnsrör hefðu sprungið og þau gætu ekki tekið við okkur en vonandi fengjum við gistingu annars staðar. Þið getið ímyndað ykkur í hvaða pakka litli kvíðasjúklingurinn fór í, ÉG PANIKKAÐI!!! Farið var á fullt að reyna að finna annan gististað sem er eiginlega ekki hægt korter í brottför þar sem allt var uppbókað eða sjúklega dýrt. Sem betur fer fann ég íbúð hjá Airbnb og stelpan sem á hana vildi allt fyrir okkur gera og mun taka á móti okkur klukkan 3 í dag. Ég hafði samband við fyrri gististaðinn og sagði honum að þessu væri reddað og ég vildi að sjálfsögðu fá endurgreitt og mismuninn fyrir nýjum gististað sem er um 8.000 krónur. Svarið var nei… Jú jú ég fæ endurgreitt en þeir voru að reyna að telja mér trú um að fá bara endurgreitt 2 nætur og koma svo til þeirra 3 nóttina, enginn afsláttur eða neitt og ekki séns að koma á móts við mig þar sem ég á síðustu stundu þurfti að redda nýrri gistingu. Við skulum alveg hafa það á hreinu að þessi gististaður fær ekki góða umsögn á Booking frá mér.

Eftir að loksins hafa reddað öllu þá var ég orðin svo upptrekkt að það var ekki séns á að ég gæti sofið þannig að ég er hér með dúndur hausverk og get ekki beðið eftir að koma mér fyrir í Saga class risa sætinu og leggja aftur augun alla leið til Köben.

OMÆ Saga Class er alveg málið.

Ekki bara að við værum með betri og stærri sæti heldur var hægt að halla þeim alveg aftur, það var nudd í stólnum og svo fengum við alvöru kodda með alvöru koddaveri.

Búinn að koma sér vel fyrir
Sofandi í vélinni og svo sátt

Það var ekki leiðinlegt að halla sætinu alveg aftur á bak, setja á sig svefngrímu og hrjóta smá meðan headfónarnir útilokuðu öll hljóð.

Maturinn var líka ekki af verri endanum en við fengum ostafylltan kjúkkling og lamb ásamt reyktum laxi og chia graut sem var unaðslega góður.

Þetta var himneskt gott

Jóhannes tilkynnti mér það að hann ætlaði að sækja um vinnu í Bónus um leið og hann kemur heim svo hann þurfi aldrei aftur að fljúga með fátæka fólkinu. Ég sagði að hann mætti alveg gera það og þegar ég myndi kaupa ferð til útlanda gæti hann uppfært fyrir okkur og við erum ánægð með þá ákvörðun, hvort það verði að veruleika einhvern tímann verður gaman að sjá.

Við lentum á Kastrup og fundum loks færibandið með töskunum og náðum í farangurinn og fórum að rúlla okkur af stað. Móttökunefndir voru á víð og dreif um flugvöllin og klappaði fyrir okkur þegar það sá að nafnspjöldin okkar enda vel merkt. Við fengum svo fullt af knúsum og okkur var komið á réttan stað til að taka metroinn til Vanlöse og ekki nóg með það þá fengum við fylgdarmann með okkur að nafni Lasse sem fór með okkur alla leið og skildi ekki við okkur fyrr en búið var að koma okkur í hendur á 2 dásamlegum trúsystrum (sú eldri var amma þeirra yngri) og komu þær okkur alveg inní húsið sem við munum eyða næstu dögum í eða til 18. júlí en þá flytjum við okkur yfir til Malmö í annað hús sem einnig er inná Airbnb.

Við komum okkur fyrir, strákarnir saman í herbergi, Eva í öðru herbergi og ég fór í barnaherbergið en það er pínulítið rúm sem passar akkúrat fyrir gömlu enda er það 160 cm á lengd og ég rétt slefa yfir 150

Eftir að allir voru orðnin sáttir var skroppið í búðina til að versla og þvílíkur munur miðað við Íslenskar búðir. Hér er ekki allt flæðandi í sælgæti og sykruðum drykkjum en heldur meira er um bjórinn. Við héldum heim og röltum svo á Burger King þar sem hungrinu var svalað með bros á vörum enda allir orðnir banhungraðir.

Það var gott að leggjast niður á koddann og hvíla lúin bein enda búið að gera helling á stuttum tíma

En þar til síðar

Konan í Árbænum

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *