Fyrsti geðlæknirinn

Mig langaði að segja frá minni reynslu af mínum fyrsta geðlækni. Því miður er þetta alls ekki góð reynsla og ég vildi óska þess að mín kynni við geðlækna og Bugl væru góð. Ég er ekki viss hvort að þessi geðlæknir sé ennþá að sinna þessu starfi en ég vona innilega ekki. Þannig er mál með vexti að ég átti mjög erfitt á mínum unglingsárum, ég var mjög þunglynd og flæktist snemma í gryfju fíkniefna. Ég skildi aldrei almennilega hvað það var að hjá mér , afhverju mér leið svona illa og hvað væri í gangi í þessum litla heila mínum. Ég skildi ekki afhverju ég sóttist í fíkniefni á þeim tíma því ég á mjög góða foreldra og fékk mjög gott uppeldi. Ég átti erfitt með að einbeita mér í skóla og fannst erfitt að sitja við borð allan daginn og læra og þá sérstaklega í hóp. Foreldrar mínir fengu tíma fyrir mig hjá mjög virtum geðlækni sem vann náið með krökkum á Stuðlum og Bugl, þau redduðu tíma hjá honum í gegnum sambönd því það var svo mikið að gera hjá honum. Mig langaði ekkert sérstaklega að hitta hann en gerði það þó með það í huga að fá hjálp. Ég man að rétt áður en ég byrjaði hjá þessum lækni að ég fór í hálskirtlatöku og gat ekkert borðað í 10 daga og missti 7-10 kíló svo á þeim tíma var ég orðin alltof grönn. Í fyrsta tímanum hjá honum ræddi hann við mig og foreldra mína og það var ákveðið að setja mig á concerta ásamt tvemur öðrum tegundum af lyfjum við kvíða og þunglyndi. Þetta var rétt eftir aðgerðina og eins og flestir vita sem hafa verið á concerta að þá er mjög erfitt að koma niður mat með lyfjunum svo ég borðaði eiginlega ekkert og léttist ennþá meira. Mér fannst lyfin ekki vera að virka eins og þau áttu að gera svo hann setti mig endalaust á hærri skammta af concerta. Ég unga 15 ára stelpan sem var komin niður í 44 kíló var komin á 72mg concerta (hæðsti skammtur af concerta er 54mg). Ég var líka að reykja mikið gras á þessum tíma og þessi læknir sagði einstaka sinnum við mig ” ef þú verður ekki edrú þá verð ég að taka af þér lyfin”, þetta voru innantómar hótnanir því hann gerði aldrei neitt í því að ég væri í neyslu samhliða lyfjunum. Hann vigtaði mig í hvert skipti sem ég fór til hans , þegar hann sá að ég var komin niður í 44 kíló sagði hann mér að ég væri orðin of létt sem ég var svo sannarlega ekki sammála (fannst ég alltaf svo feit), algjörlega brengluð staðalýmind hjá mér. Hann setti mig á enn eitt lyfið til að auka matarlystina mína sem það hjálpaði þá í smá tíma. Mér líkaði samt ekki vel við hann þar sem mér fannst hann skilja mig illa og ég skildi ekki hvað hann sagði við mig þar sem hann talaði bjagaða íslensku, hann var mjög kaldur við mig og ég fékk þannig tilfiningu frá honum eins og hann vildi bara lyfja mig upp og senda mig í burtu. Á þessum tíma fann ég litla breytingu á minni líðan , jú concerta hjálpaði mikið með athyglisbrestinn en að öðru leyti fann ég ekki neina breytingu. Þessi læknir gerði ekki mikið til að aðstoða mig , ég þurfti á mikilli hjálp að halda og fékk hana ekki. Hann sendi mig ekki einu sinni í samtalsmeðferð eins og hann hefði átt að gera. Ég hitti þennan lækni 1-2 í mánuð, eftir að hann setti mig á lyf til að hjálpa mér að borða þá þyngdist ég aðeins. Var komin upp í 55kg þegar hann svo vigtaði mig aftur (sem er ennþá undir kjörþyngd fyrir mig þar sem ég er 170cm). Þessi tiltekni tími hjá þessum lækni situr ennþá í mér daginn í dag 8 árum seinna , því þegar hann sá hversu “þung” ég var orðin kallaði hann mig feita og sagði að ég væri nú orðin of þung og þyrfti að fara að passa mig. Hver segir svona við 15 ára brotna sál? , maðurinn sem átti að hálpa mér og vera til staðar fyrir mig brenglaði sjálfsmyndina mína enn meira. Það leið ekki á löngu þar til foreldrar mínir létu mig hætta að hitta þennan lækni. Nokkrum mánuðum seinna var ég lögð inn á Bugl í 4 vikur til að losa mig við lyfin , mér leið mjög illa á öllum þessum lyfjum og þá sérstaklega concerta. Ég man vel eftir fyrstu 4 dögunum á Bugl þegar ég var tröppuð niður af concerta, þetta voru verstu fráhvörf sem ég hef nokkur tíman gengið í gegnum. Ég mistnotaði aldrei lyfin mín og samt leið mér eins og ég var að koma niður af nokkra vikna djammi. Uppáskrifuð lyf frá virtum geðlækni veittu mér það mikil fráhvörf að mér langaði að enda líf mitt vegna vanlíðan. Ég svaf meira og minna í 4 sólahringa , gat ekki borðað eða staðið í lappirnar , titraði öll og kastaði upp. Hvaða læknir skrifar upp á það stóran skammt af lyfjum svo það valdi svona miklum fráhvörfum við NIÐURTRÖPPUN. Þetta var ógeðsleg lífsreynsla og ég hef nú gengið í gegnum mörg fráhvörf en engin svona slæm. Bugl aðstoðaði mig ekki mikið , það var ekki hlustað almennilega á mig og ekki mætt mínum þörfum, ég hitti sálfræðing einu sinni á þessum 4 vikum sem ég var þarna og við töluðum lítilega saman þar sem hún var að drífa sig svo mikið , hún hafði engan tíma til að sinna mér. Ég var í hópatímum sem ég tengdi ekkert við en það skipti svo litlu máli hvað ég hafði að segja , það var einfaldlega ekki hlustað. Það þarf alvarlega að fara að laga heilbrigðiskerfið okkar og fara að hlusta meira á ungmenni og mæta þeirra þörfum miklu betur. Það þarf að hætta að lyfja alla upp og halda því fram að lyfin lagi allt.

Er samt alls ekki að segja að lyf séu ekki nauðsynleg , í mörgum tilfellum eru lyf mjög nauðsynleg og alls ekki hægt að sleppa þeim , ég er bara að tala um þegar læknar henda í mann fullt af lyfjum eins og það eigi að laga öll vandamálin.

Þessi reynsla situr ennþá í mér suma daga , en ég er þó að hitta sálfræðing í dag og er búin að vera að hitta hana sl. 2 ár, ég tengdist henni mikið enda hlustar hún og vinnur með mín vandamál samhliða mér og á mínum hraða.

Ég vona innilega að þessi tiltekni læknir sé ekki að starfa við þetta enn þann dag í dag og ég vona að fleiri hafi ekki lent í þessum manni.

Þangað til næst!


You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *