Íþróttaiðkun barna og unglinga

Að stunda íþróttir eða líkamsrækt er eitthvað sem við vitum að er nauðsynlegt fyrir okkur öll. Við vitum líka að íþróttaiðkun barna og unglinga er mjög mikilvæg bæði uppá hreysti en einnig hefur það sýnt sig og sannað að börn sem stunda íþróttir eru líklegri til að lenda ekki í slæmum félagsskap og  alls konar neyslu. Þau læra aga, jafnvægi, teygjur  og í hópíþróttum læra þau samvinnu.

Allt er þetta blessað og frábært og æðislegt en eitt sem ég skil ekki er af hverju má þetta ekki bara vera gaman?

Mér finnst alltof mikið byggjast á því að þurfa að keppa. Æfingar eru strangar og oft á tíðum alltof erfiðar fyrir krakkana. Nú myndu fróðari menn en ég (enda kona hahahaha) segja að þetta er til að einstaklingurinn ná árangri og auðvitað er það rétt, ef þú villt ná árangri þá þarftu að leggja hart á þig. En málið er að margir krakka eru ekki að eltast við það að verða bestir, þeim finnst bara gaman að leika sér, þau eru ánægð og í leiðinni eru þau að stunda einhverja hreifingu en ekki að stara á einhverja skjái allan daginn.

Ég hitti konu sem ég þekki sem var einmitt að tala um akkúrat þetta. Dóttir hennar er búin að vera í fimleikum og er þetta 3 árið hennar. Hún hefur alltaf verið skráð í létt hóp sem ekki er að fara að keppa heldur hefur bara gaman af því að koma 2 sinnum saman í viku og læra að fara í flikk flakk og splitt og standa á höndum (svona eins og ég geri reglulega………………………………. alla vega þegar mig dreymir þá er ég sjúklega liðug og fitt og flott)

Núna er búið að breyta þessu, kominn nýr þjálfari sem er með ofsa aga og keyrir krakkana alveg út sem hefur gert það að verkum að núna þegar rétt eru búnir örfáir mánuðir af önninni vill hún hætta, fær kvíða og hefur enga ánægju af íþróttinni. Það er búið að kæfa gleðina og koma inn kvíða í staðin þar sem þú verður að verða betri NO MATTER WHAT!!!

Ég kannast við þetta sjálf frá því að ég var barn. Ég æfði skíði og það var farið á skíði allt árið um kring. Bláfjöll eða Hamragil á veturnar, Kerlingafjöll á sumrin og svo Austurríki og Sviss þess á milli. Æfingar voru strangar og þú þurftir að gera þetta betur og ná upp meiri hraða og þú verður að vera betri í að skauta þar sem við á og ég veit ekki hvað. Eftir æfingar hafði maður smá tíma til að fara nokkrar ferðir sjálfur og maður naut þess að þurfa ekki að vanda sig.

16 ára gömul fékk ég ógeð og þá meina ég ógeð. Ég lagði skíðin á hilluna og gat ekki fyrir mitt litla líf hugsað mér að stíga á þau aftur og hlunkast niður fjallshlíð. Skíðin sátu á hillunni í 25 ár, að vísu sitthvorri hillunni þar sem ég flutti og lánaði þau og svo þvældust þau út og suður þar til þau enduðu aftur í mínum höndum. Það var fyrst í fyrra sem ég lokst tók þau fram 41 árs ung (með hegðunarþroska á við 15 ára) og ákvað að skella mér á skíði með vinkonu minni á Akureyri. Ég endaði að vísu með að leigja skíðabúnað í Hlíðarfjalli þar sem ég komst ekki í að láta vaxa þau og skerpa og VÁÁÁÁÁÁÁÁÁÁ þetta var æði. Allt í einu fann ég aftur gleðina við að heyra brakið í snjónum, finna vindinn í andlitinu, sjá allt þjóta framhjá á ógnarhraða og finnast maður vera frjáls. Það er eins og maður sé að fljúga og manni líður eins og maður geti sigrað heiminn. Þetta er pottþétt sama tilfinningin og hann Jack gamli hafði þegar hann stóð með hendur teigðar í sitthvora áttina og öskraði ¨I´m the king of the world¨  í fyrstu og síðustu ferð Titanic.

 

Sama er líka að segja með íþróttir í skóla. Mörg börn kvarta undan íþróttkennslu í skólanum og er sonur minn einn af þeim.

Ég fór einmitt að spjalla við foreldra í kringum mig þegar ég ákvað að fjalla um þetta málefni og meira að segja þau börn sem eru að æfa fótbolta eða handbolta og elska að hreifa sig HATA LEIKFIMI, ég meina ÍÞRÓTTIR (sonur minn skammar mig alltaf þegar ég segi leikfimi og spyr hvort ég hafi verið fædd árið 1700)

200 börpís, 100 armbeygjur, 100 magaæfingar, hlaupa 7000 hringi í kringum íþróttasalinn, ég fæ næstum gubbuna við tilhugsunina. Sonur minn þarf t.d. á sjúkraþjálfun að halda og erum við einmitt á biðlista hjá lömuðum og fötluðum en hann er laus í liðamótum og allur aumur og þarf að fá þjálfun til að styrkja sig. Fyrir utan þetta er hann líka með ódæmigerða einhverfu og það að geta bara gert 3 armbeygjur gerir það að verkum að hann fer að draga sig niður og segja að hann sé ömurlegur og glataður og aumingi. Sama gengur yfir alla og ekki tekið tillit til neins. Afhverju er ekki hægt að gera þetta skemmtilegt. Hafa fjölbreytilegt og leyfa þeim að hafa 1 tíma sem er kanski fótbolti og næsti tími er Tarzan, svo gæti verið brennó og þar á eftir einhverskonar þrautaleikur. Gera eitthvað sem fær börnin til að vilja fara þar sem þetta er gert til þess að þau hreyfi sig og kynnist þeim íþróttum sem eru í boði þarna úti en á sama tíma hafi unun og gleði af tímanum.

 

Ég er viss um að fleiri myndu stunda íþróttir af hvaða tegund sem er ef hægt væri að gera þær skemmtilegar en gera þær ekki að kvöð. Hugsum út í það þegar börnin okkar þurfa að fara á æfingu, fara þau glöð með tilhlökkun eða eru þau með kvíðahnút í maganum.

Gerum þetta gaman lífið er nógu erfitt!!!

Knús og hamingja

Bryndís Steinunn

You may also like...

3 Responses

  1. Yngvi Þór Geirsson says:

    Ég held að þú ættir að kynna þér betur hvernig leikfimikennsla fer fram í dag, hún fer fram eins og þú ert að óska eftir, ekki eins og þú heldur. Nemendur þurfa að vísu að hlaupa, hoppa, gera armbeygjur og annað íþróttatengt en það er gert í bland við leiki.

  1. November 20, 2018

    […]  Færslan er skrifuð af Bryndísi Steinunni og birtist upphaflega á Amare.is […]

  2. November 20, 2018

    […]  Færslan er skrifuð af Bryndísi Steinunni og birtist upphaflega á Amare.is […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *