Kaldur kalkúnn

Ég á við vandamál að stríða. Fíkn.

 

Ég er háð símanum mínum og forritunum sem hann geymir, þá sérstaklega facebook og snapchat.

Ég hef því ákveðið að hætta notkun þeirra „cold turkey“.
Það þýðir semsagt að ég eyði þeim út einn, tveir og bingó; hætti notkun þeirra samstundis. Engin niðurtröppun.

Af hverju?

Af því að ég er farin að taka eftir því sjálf að ég er að missa af tíma með börnunum mínum. Ég er farin að taka af þeirra tíma með mér og fresta mikilvægum verkefnum því að ég „gleymdi mér óvart“ í símanum.

Ég heyrði dóttur mína garga á mig að hætta í símanum af því að ég átti að koma að versla í búðinni hennar.
Ég fékk illt í hjartað því ég veit hversu niðursokkin ég get orðið, svo ég gat ekki vitað hversu lengi elsku greyið var að reyna að ná sambandi við mig.
Ég vil ekki vera þessi mamma. Ég held að enginn vilji vera þetta foreldri.

Það er nú að byrja nýtt ár, svo þetta er fullkominn tími til þess að breyta og bæta. Ég er með langan lista af slíkum átökum framundan ..

Ég hætti nú einu sinni á facebook, bókstaflega Cold Turkey. Óvart.
Ég var í prófatörn í menntaskóla og náði í þetta svakalega sniðuga forrit, Cold Turkey, til að stilla inn tíma sem facebook og youtube gat verið opið, svo ég myndi ekki freistast til að gleyma mér í því frekar en bókunum. Ætlaði þá að stilla inn nokkra klukkutíma á dag sem gekk ekki betur en svo að ég lokaði óvart öllu heila klabbinu í 3 mánuði í stað 3 klukkutíma.

Það var ákveðinn skellur. Mæli með þessu forriti.

En ég er ekki lengur menntaskólakrakki, heldur fullorðinn einstaklingur svo ég ræð við þann skell.

Ég þarf að versla gríðarlega mikið í markaðinum hér heima svo að ég má ekki vera að því að hanga í símanum. Ég kíki á facebook í tölvunni en fólk þarf bara að sakna mín á snapchat. Veit að það verður gríðarlegur missir, en þið lifið.

Þeir sem vilja versla kaffibolla af dóttur minni eru velkomnir í heimsókn; bollinn kostar 10 þúsund krónur, takk fyrir pent. That kid is going places!

 

Þar til næst ..

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *