Katrín, kryddbrauð og kjúklingasúpa

Það fylgir mér ekki langur listi af afrekum í eldhúsinu þrátt fyrir að hafa horft á allar seríur sem Gordon Ramsey hefur gefið út (hefur ekkert með bullandi kynþokka hans að gera, ég elska bara mat sko).

Ég á þó til mjög góða uppskrift af kryddbrauði upp í erminni sem börnin mín elska, sem betur fer, þar sem ég get ekki með neinu móti útbúið neitt annað fyrir þau án þess að valda slysi.

3 dl hveiti
2 dl sykur
3 dl haframjöl
2,5 dl mjólk
hálf tsk negull
hálf tsk engifer
1 tsk kanill
2 tsk lyftiduft

Það besta við þessa uppskrift er að það er engin formúla eða rútína sem þú þarft að fylgja við blöndunina á hráefnunum, til þess að brauðið komi sem best út. Þú hreinlega sullar þessu öllu saman í einn graut og skellir svo yfir í smurt form. Ég smyr formin yfirleitt léttilega með olíu.

Eftir að leðjan er komin í formið strái ég örlitlu kakódufti yfir, bara af því bara. Nokkuð viss um að það geri ekkert fyrir bragðið á brauðinu; lætur mig bara hljóma eins og ég viti eitthvað um bakstur.
Skellið þessu inn í 180°C heitan ofn í 50 – 60 mín.
Kryddbrauðið er að sjálfsögðu best framreitt heitt, með íslensku smjöri og osti.

EN KATRÍN HEFUR SKO MEIRA Í POKAHORNINU HJÁ SÉR!

Dinner, dinner, dinner. Alltaf sami hausverkurinn. Og ég sem mjög upptekin og uppgefin! móðir hef ekki oft rænu á að útbúa fjölbreyttan og góðan kvöldmat frá grunni. Er alltaf í þessum fljótlegu réttum. Mér finnst það mjög leiðinlegt því mig langar svo að vera húsmóðirin sem gerir súpur frá grunni og prufar sig áfram með flóknum, elegant hráefnum.
En ég fann smá milliveg. T.d. varðandi geggjuðu mexíkósku kjúklingasúpuna sem allir elska. Lesið vel ..

Kaupið kjúklingabringur, skerið í bita og steikið upp úr smjöri eða olíu (eftir smekk).
Kaupið allt meðlæti í súpuna; sýrður rjómi, rifinn ostur, doritos.
Skellið svo bara í mexíkóska pakkasúpu og hendið öllu apparatinu í!
Voliá! Mexíkósk kjúklingasúpa!

Skal alveg gefa það upp að hún er ekki eins bragðgóð og sú sem er gerð frá grunni, en krakkarnir vita það ekkert! Þau sjá bara að mamma er ýkt dugleg að elda!

Högni missti upp úr sér svolítið fliss þegar hann heyrði að ég ætlaði að leggja í púkkið í uppskriftarviku Amare, þar sem hann sér það sem fer fram bakvið tjöldin og við eldavélina. Hann hefur eitt lýsingarorð yfir matinn sem ég framreiði; Fínt.   Hvorki meira né minna, aldrei. Þetta er orð sem kemur honum ekki í vanda, því það skortir alla hreinskilni og getur því ekki verið rætt sérstaklega.
Nei, ég lýg því … Hann hefur 3x þurft að panta pítsu til að redda málunum, en við ræðum það ekkert sérstaklega.

Vona að ég láti heyra fljótt frá mér aftur – þarf aðeins að hlaða batteríin á bloggaranum í mér. En þar til næst!

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *