Kynningarblogg – Fjóla Einarsdóttir

   Komið þið sæl kæru lesendur

Ég heiti Fjóla Einarsdóttir og er nýjasti bloggarinn hér á Amare.is. Ég er 31 árs og bý í Mosfellsbæ ásamt Illuga, kærastanum mínum (bráðum eiginmanni) og börnunum okkar, Erni og Írenu. Ernir er 5 ára og Írena er 2 ára.

 

 

Síðustu tvö ár hef ég verið í einhverskonar tilvistarkreppu og er bloggið mögulega enn einn hluti af henni. Ég kannski útskýri þessa svokölluðu tilvistarkreppu betur. Árið sem ég varð þrítug upplifði ég mig svo ótrúlega staðnaða í lífinu að ég fann að ég varð að gera einhverjar breytingar.
Við seldum íbúðina okkar og keyptum okkur raðhús í byggingu, ég hætti á vinnustað þar sem ég hafði starfað í mjög langan tíma fann mér aðra vinnu sem var mjög frábrugðin því sem ég hafði nokkurn tímann gert og setti mér það markmið að segja sem minnst „nei“ við þeim tækifærum sem kæmu upp. Þetta blogg er einmitt eitt af þessum tækifærum og er ég mjög spennt að fá að vera með frábæru stelpunum hér á Amare.is.

En meira um mig, ég er viðskiptafræðingur að mennt og starfa á því sviði í dag. Ég útskrifaðist sumarið 2017 frá háskólanum í Reykjavík, en dagurinn sem ég tók við prófskírteininu var sennilega einn af þeim betri í mínu lífi. Háskólanámið var mjög krefjandi en ég var í 100% vinnu og eignaðist bæði börnin mín á meðan á náminu stóð. Þetta var á tímum ótrúlega erfitt, en þegar upp er staðið hefði ég ekki viljað hafa gert þetta öðruvísi. Það að þurfa að forgangsraða tímanum mínum kenndi mér ótrúlega margt.

Lífið mitt þessa dagana snýst aðallega um fjölskylduna, vinnuna og að innrétta húsið sem við keyptum á seinasta ári. En þegar við tókum við því var það tilbúið til innréttinga og hefur því farið rosalega mikill tími í vinnu við það. Við byrjuðum þetta verkefni með það í huga að þetta yrði verkefni til nokkurra ára og það mun klárlega verða það. Ég mun án efa skrifa eitthvað um framkvæmdirnar okkar, sýna ykkur fyrir og eftir myndir og reyna að koma með einhverjar ráðleggingar fyrir fólk sem langar að fara í svona verkefni.

 

Minn uppáhalds staður í húsinu er sennilega eldhúsið. Það fór langur tími í hönnun þess og fórum við í gegnum margar útfærslur á því, lokaútkoman hentar mér 100% og gæti ég ekki verið sáttari. Ég elska að elda og eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að baka og skreyta kökur. Ég er aðal bakari fjölskyldunnar þegar kemur að afmæliskökum barnanna og hafa þónokkur köku-listaverk verið sköpuð hér í eldhúsinu mínu. Hápunktar ársins eru alltaf afmæli barnanna minna og er ég orðin þekkt fyrir að fara alla leið í skreytingum og fínerí í kringum þau.

 

 

Næsta stóra verkefni hjá mér er brúðkaup, en við kærustuparið til 13 ára, höfum ákveðið að gifta okkur næsta sumar. Er sá undirbúningur kominn á fullt og ég hlakka mikið til að deila þeim undirbúningi með ykkur.

Ég vona að þessi litla kynning veiti ykkur smá innsýn í það hver ég er og hvað ég mun skrifa um. Þangað til næst.

 

 

 

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *