Kynningarblogg – Bryndís Steinunn

Hæ allir Amare aðdáendur

Mig langar að kynna mig örlítið en ég fékk þann heiður að fá að vera nýjasti bloggarinn hér inni.
Ég heiti Bryndís Steinunn og er “AÐEINS” eldri en hinar stelpurnar, ekkert mikið samt, bara örlítið. Ég er fædd 1976 sem gerir mig víst 42 ára unga. Ég er einstæð móðir með 1 unglingsstrák sem heitir Jóhannes Örn. Jóhannes er fæddur árið 2004 og ég mun pottþétt skrifa um meðgönguna, fæðinguna og fyrstu 14 árin hehe. Við búum í sætri íbúð í Árbænum og höfum við verið hér frá árinu 2006 og hér líður okkur vel.

En aftur að mér, ég er förðunarfræðingur að mennt en ég lét drauminn rætast á síðasta ári þegar ég dreif mig í Reykjavík Makeup School. Þar kynntist ég einmitt henni Gullý Sif sem einnig er penni hér inni. Áður vann ég sem bókari fyrst hjá fyrirtæki sem hét Gripið og Greitt og síðar hjá Olís en þar starfaði ég til áramóta 2008. Þá ákvað ég að kominn væri tími til að klára stúdentinn og náði ég því í desember 2009 þá 33 ára gömul. Já maður er aldrei of gamall til að mennta sig hvort sem það er í einhverri menntastofnun eða skóla lífsins og ég er bara rétt að byrja.

Í dag er ég ekki á vinnumarkaðinum þar sem ég lenti í alvarlegu slysi fyrir 15 árum síðan. Ásamt hinum ýmsu áföllum sem ég hef upplifað yfir ævina hef ég ekki getað unnið síðan árið 2010. Það ár var virkilega áhrifaríkt fyrir mig en þá kláraðist bæði andleg og líkamleg geta mín og ég í raun gafst upp en ég á pottþétt eftir að fjalla um það í framtíðinni ásamt þeim fordómum sem ég hef mætt og þá aðallega frá mér sjálfri.

Mig langar líka að segja ykkur frá mínu daglegu lífi, áhugamálum, tilraunum af home made hlutum, snyrtivörum, þunglyndi, kvíða bara you name it enda eru þið að fara að fá innsýn inn í hugarheim minn en hann er oft stórfurðulegur, sorglegur, fyndinn og pælingarnar alveg út úr kú. Ég plana að taka ykkur með í ferðalög og læknisheimsóknir, fundi hjá skólayfirvöldum en ég fer á gríðarlega marga svoleiðis fundi þar sem sonur minn er greindur með ADHD einhverfu, Aspergers heilkenni, mótþróaþrjóskuröskun, þunglyndi, kvíða og já bara allan pakkann en hann er líka fullkominn, algjör meistari eins og ein vinkona mín kallar börn með greiningar. Ég myndi í alvörunni ekki vilja hafa hann eitthvað öðruvísi. Ég viðurkenni samt alveg að ég er stundum alveg tilbúin í að senda hann til Afríku að vinna í svona 2-3 mánuði þá myndi hann skilja hvað hann hefur það gott hér heima (lesist með illa pirraðri og þreyttri mömmurödd) en ég hef heyrt að það sé eitthvað sem fylgi þessum táningum, að vera vanþakklátir. Mamma segir að ég hafi verið alveg eins, skrítið hvað ég man ekkert eftir því enda held ég að hún sé stórlega að ýkja hlutina, ég var pottþétt hinn fullkomni unglingur. Trúðu þið þessu? Nei ekki ég heldur, ég var alveg jafnerfið og sonurinn ef ekki erfiðari. En lífið er eitt stórt ferðalag með klifur á fjöllum og tjilli í grasinu í sólinni en þannig lærum við eitthvað nýtt, sumt er gott og skemmtilegt annað erfitt og sorglegt. Spurning er bara hvernig við vinnum í því.

En annars hlakka ég bara mikið til að vera með ykkur og finnst það ótrúlegur heiður að fá að vera hérna

Knús og kossar
Bryndís Steinunn
Gamla konan með ungu sálina og Pollýönnu hjartað og hugarfarið

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *