Leikhúsupplifun

Ég elska að fara í leikhús og upplifi það alltaf sem eitthvað sérstakt, eitthvað töfrandi.

Ég fór einmitt í Borgarleikhúsið 4. mai síðastliðin en þá bauð mamma mér á Ellý.

Spennan var mikil og ég hlakkaði ótrúlega mikið til enda er ég alin upp með Villa eða Ellý í botni heima.

Ég skellti mér í bað, fór í kjól og málaði mig aðeins. Að sjálfsögðu fór ég í dásamlega fallega hælaskó og var í fallegum jakka með loðkraga. Fyrir mér á maður að vera fínn í leikhúsinu, það er einhvern veginn hluti af stemmingunni og hluti af þeirri virðingu sem maður sýnir leikurunum og öðru starfsfólki sem hefur lagt allt sitt í að gera sýninguna sem frábærasta fyrir gesti.

En það eru ekki allir sem taka leikhúsferðirnar jafn alvarlega og ég geri. Mér finnst þetta virkilega slæmt í Hörpunni en ég hef nokkrum sinnum farið þangað bæði á óperur, ballet og sinfóníutónleika og meðan ég er í mínum bestu klæðum sé ég fólk koma í rifnum gallabuxum, druslulegt og einu sinni sá ég manneskju í skítugum vinnugallanum.

En alla vega aftur að Ellý.

Ég verð bara að segja VÁÁÁÁ

Við mamma sátum á öðrum bekk akkúrat í miðjunni og ég bókstaflega gat séð saumana á kjólunum og þvílíkir kjólar. Einhvern veginn fyrir mig var þessi tíska æðisleg. Hún dróg fram kvenleikann og þokka hverra stúlku, konur voru konur og menn voru menn. Já ég er ótrúlega gamaldags, ég vil vera bjargað af prinsinum á hvíta hestinum sem kemur og hjálpar mér að negla upp nagla og heldur á þungum hlutum fyrir mig því hann er svo sterkur. Halló Binga mín hættu að dagdreyma, þú ert að tala um Ellý sýninguna en ekki að fjalla um ævintýrið sem býr í hausnum á þér.

Sýningin var vel hepnuð, fyndin, áhugaverð og sorgleg. Ég efast um að það hafi verið margir sem ekki urðu snortnir þegar Villi Vill lést. Tónlistin frá þessum tíma er líka svo falleg og mikið lagt í hana. Textarnir hafa djúpa meiningu og fjalla ekki um uppáferðir og blót eins og flest lög fjalla um í dag.

Þegar söngkonan hóf upp rödd sína fór fiðringur um mig alla, ég fékk gæsahúð og tárin komu fram. Þvílík rödd, þvílík tilfinning, þvílíkur snillingur.

Flest lögin kunni ég þar sem ég held svoldið mikið upp á þessa tónlist og var erfitt að halda stundum munninum lokuðum þegar tónarnir léku létt um mig og dönsuðu fyrir skilningarvitin sem nutu og gleymdu tíð og tíma.

Ég mæli hiklaust með þessari sýningu og vonandi verður hún tekin upp og sýnd í sjónvarpi því hún er virkilega flott í alla staði.

Þegar sýningunni lauk stóðum við upp úr sætunum og við mér blasti sóðaskapurinn eftir fólk. Umbúðir af sælgætisbréfum, plastglösum og nammi var á víð og dreif um salinn. Ber fólk enga virðingu fyrir hlutunum? Fyrir mig er þetta ofsalega leiðinlegt og vil benda fólki á að það er lítið mál að setja hlutina í ruslið bæði í hléi og eftir sýningu.

En já ég elska að fara í leikhúsið og næst ætla ég með mömmu, vinkonu hennar og mér til mikillar gleði heimtar 15 ára gamall sonur minn að koma með að sjá Villa Vill en hann er að elska tónlistina frá þessum tíma í botn og var hálffúll að fá ekki að koma með á Ellý.

Ég mun þá punta mig upp og gera mig sæta, fara í mitt fínasta og njóta töfranna sem leikhúsið býður uppá því mér finnst það eiga við að gera sig til fyrir fólkið sem ætlar að sjá til þess að ég skemmti mér í 2 klt eða svo

En þar til næst

Njótið tilverunnar

konan í Árbænum

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *