Meðgangan mín

Í dag eru 15 ár síðan ég hitti uppáhalds manneskjuna mína í heiminum, 15 ár síðan ég heyrði í honum í fyrst skipti og akkúrat við það að heyra í honum í fyrsta sinn fylltist hjarta mitt af ofurást, allur líkaminn fylltist af þessari ást sem á sér enga líkan. Ást sem gerði það að verkum að ég var tilbúin að deyja fyrir hann án þess að hika.

Já í dag eru 15 ár síðan ég varð mamma. En sagan byrjar aðeins fyrr eða um 9 mánuðum á undan.

Ég bjó í Kópavogi í yndislegri íbúð sem ég leigði hjá dásamlegu fólki. Lífið snérist eingöngu um mig, ég djammaði mikið, drakk flestar helgar, hélt mjög oft partý og reykti eins og strompur.

Ég var að vinna í verslun sem hét Gripið og Greitt og sat þar á skrifstofunni alla virka daga og bókaði reikninga. Ég eyddi peningum í vitleysu og eiginlega hélt að svona myndi lífið alltaf vera.

Ég var oft spurð að því hvenær ég ætlaði að hætta að reykja og svarið mitt var alltaf ,,Aldrei, nema ég verði ófrísk en ég ætla ekki að eignast börn því þau eru leiðinleg og vond lykt af þeim”

Þetta með börnin var bara kjaftæði en ég hafði fengið að vita það 17 ára að ég myndi mjög sennilega ekki eignast börn í framtíðinni og það var betra að telja sjálfri mér trú um að ég þoldi ekki börn (samt var ég sípassandi) því þá var það mín ákvörðun að eignast ekki börn en ekki að ég gæti það ekki. En í sambandi við reykingarnar þá elskaði ég að reykja. Að setjast með kaffibollann og kveikja í rettunni var unaður sem ég naut í botn og hafði enga áhuga á að hætta.

Eggið var varla frjófgað þegar ég var komin með einkenni óléttunnar. Allt lyktaði illa, þvotturinn minn var bókað myglaður, allt kjöt var ógeð, ég þoldi ekki að fólk kom við mig og ég varð að fá glænýjann ís úr vél daglega. Vinirnir voru allir að reyna telja mér trú um að ég væri ófrísk og ég horfði á þá eins og þeir væru eitthvað klikk. Það var ekki fyrr en ég gisti heima hjá vinkonu minni sem ég tók óléttuprufu. Hún og maðurinn hennar voru búin að vera að reyna að eignast afkvæmi með hjálp læknavísindanna og þennan morgun mátti hún tékka en hún plataði mig að gera eins sem svona moral support. Ég hugsaði að það gæti ekki verið mikið mál ef hún vill eyða pening í að ég pissi á prik og sem góð vinkona sagði ég ,,Auðvitað vill ég vera moral support fyrir þig” Aldrei hefði ég grunað að niðurstaðan yrði sú að hún fékk neikvætt en vitlausa ég fékk já

 

Við grétum báðar við að horfa á niðurstöðuna. Báðar grétum yfir að hún væri ekki ólétt því að hún var kominn með pakkann, þið vitið, gift, átti íbúð og bíl og í góðri vinnu og allt í réttri röð. Ég grét líka af því að ég var glöð, var að verða mamma sem ég hélt ég myndi aldrei verða en líka var ég ótrúlega hrædd við allar þær breytingar sem voru að fara að gerast. Ég hélt á prófinu í annarri hendi og sígarettupakkanum í hinni og hágrét líka yfir að þurfa að hætta að reykja, það fanst mér hræðilegt.                                                                                             En ég hætti

 

Ég panntaði tíma hjá kvennsa og af því að ég hef glímt við svo rosaleg kvennavandamál þá var ég með opna skýrslu og þurfti ekki að bíða lengi. Ég kom til hans og sagði honum að ég væri ófrísk og í snemmsónar fór ég og baunin mín var svo lítil að við sáum hana ekki. Það eina sem sást var holrúmið sem var byrjað að myndast í leginu og fékk ég að vita að ég væri komin sirka 5-6 vikur á leið. Við erum að tala um að þarna eru um 2 og hálf vika síðan ég tók óléttuprófið.

 

Meðgangan var erfið. Ég var stanslaust flögurt og gat ekkert borðað í 5 mánuði. Það eina sem ég kom ofan í mig voru ávextir og grænmeti, þurrt brauð og kaffi. Hey ég hætti að reykja ég var ekki að fara að taka af mér kaffið líka.  Ég bað líka um að fá að fara í sykursýkispróf strax á mánuði 3 þar sem mikið er um sykursýki í ættinni og sérstaklega á meðgöngu. Jú jú það var rétt ég var með meðgöngusykursýki og að fá þær fréttir var ákveðið áfall. Það var svo erfitt að sprauta í fyrsta sinn en svo auðvitað fer það í vana eins og allt annað. Barnsfaðir minn flutti út til Svíþjóðar og ég verð að viðurkenna að það var svoldið erfitt, þrátt fyrir að ég vildi ekki samband þá upplifði ég höfnun. Svo kom næst áfall. Hjónin sem ég var búin að leigja hjá í 3 ár voru að selja húsið og ég þurfti því að flytja og eini staðurinn sem ég gat flutt á var heim til mömmu. Ekki misskilja mig ég elska mömmu mína en ég get ekki búið með henni.

Við vorum búin að pakka öllu dótinu mínu, fara með í geymslur, fara með drasl á sorpu og það eina sem var eftir var að þrífa. Þar sem ég bjó er sjúklega mikil umferð á virkum dögum en það er ekkert að gerast á kvöldin og um helgar þannig að flestir sem eiga ferð um þessar slóðir á þeim tímum sem lítil umferð er keyrðu (og gera örugglega enn) á trilltum hraða, Palli var einn í heiminum hratt.

Það er einmitt það sem gerðist þegar mamma var að fara að beygja inn í götuna sem ég bjó í að stór upphækkaður Toyota jeppi keyrði aftan á okkur á fullu blasti. Litli Twingoinn hennar mömmu fór í tætlur. Rúður voru brotnar, sætin voru brotin og aftursætið var orðið framsætið. Ég hef aldrei á ævinni orðið jafnhrædd og jafnreið. Ég gat ekki talað, ég öskraði bara og ætlaði að rjúka í manngreyið sem keyrt hafði á okkur og öskraði á hann að hann væri búin að drepa barnið mitt. Mamma hringdi í neyðarlínuna og lét vita hvað hefði gerst og sagði að ég væri ófrísk. Þegar hún spurði mig hvort ég finndi einhvers staðar til öskraði ég á hana ,,Ég finn ekki neitt” Ég var alveg tilfinningalaus og ég er viss um að ef ég hefði verið stungin í lærið hefði ég ekki tekið eftir því, allar mínar hugsanir voru hjá litla barninu mínu sem núna var 20 vikna.

Lögregglan og sjúkrabíllinn komu á staðinn ásamt lækni og þá grét ég bara, missti mig alveg, grét af hræðslu og sorg því ég hélt að þetta væri búið. Á sama tíma og læknirinn huggaði mig viðurkenndi manngreyið á Toyota jeppanum að hann hefði ekki stigið á bremsuna fyrr en eftir höggið og að hann hefði verið á alla vega 140 km hraða. Hann var í sjokki yfir að hafa e.t.v. orðið ófæddu barni að bana.

Ég var send uppá meðgöngudeild á Landspítalanum og ekki vissi ég að ég myndi eyða tíma mínum meira og minna þar inni það sem eftir var af meðgöngu.

Kíkt var á krílið og þegar ég fékk að heyra að ekkert væri að litla kút andaði ég léttar…….. eða eigum við að segja að ég reyndi að anda léttar en sársaukinn sem kom við fréttirnar voru hrikalegar. Það kom í ljós að ég hafði slasast ágætlega en hafði ekki fundið fyrir því fyrr en að ég vissi að engillinn minn væri í lagi.

Skemmtilega við það að lenda í bílslysi ófrískur er að verkjalyf eru eiginlega ekki í boði. Ég var send í sjúkraþjálfun 3 í viku og ég hékk saman á einhverju sem ég veit ekki hvað var enn í dag, mig grunar að það hafi verið þrjóska en hver veit.

En ég reyndi eins og ég gat að gera mitt besta og 6 desember 2003 flutti ég inn í mína fyrstu eigin íbúð og sama dag fékk þær fréttir að vinkona mín sem ég minntist á í byrjun var loksins orðin ófrísk líka. Þvílík hamingja

 

En ég bjó ekki lengi í litlu íbúðinni minni í Gyðufellinu á 4 hæðinni. Grindin gat ekki stigana þannig að aftur fór ég til mömmu og var svo lögð inn alveg í byrjun janúar 2004. Þá var ég alveg hætt að sofa vegna verkja og fékk því að sofa í Lazy Boy stól og fékk verkjanudd daglega, well fyrir utan helgarnar og var ég orðin geðbiluð af verkjum á mánudagsmorgnum þegar sjúkraþjálfarinn loks kom.

Ég fór ekki í almennilegar rannsóknir fyrr en eftir fæðingu og kom þá í ljós samfallnir hálsliðir, skemmdir á axlafestum í hægri hendi, miklar taugaskemmdir og ofan á þetta bættist við grindargliðnun, grindarlos og svo hafði grindin skekkst í slysinu. Þegar ég segi fólki að ég sé búin að vera með stanslausann höfuðverk síðan 31 ágúst 2003 þá bregður því oft og trúir því varla. Taugaskemmdirnar eru erfiðari en ég fjalla örugglega um afleiðingar slyssins betur síðar

Ég var þunglynd og leið ömurlega illa. Ég var reið út í allar þessar konur sem sögðu að meðganga væri besti tími sem maður gæti upplifað. Jú tilhugsunin um að verða mamma var best í heimi en að geta ekki sofið, að finna til, þurfa að passa mataræðið og sprauta sig með innsúlíni tók bara það besta úr mér. Ég viðurkenni það fúslega í dag að ég var hin allra leiðinlegasta ólétta kona í heimi.

Viku fyrir settan dag (38 vikur, sykursjúkar mæður ganga ekki lengur) fór ég í vaxtasónar. Ég var komin 37 vikur á leið og vaggaði úr rúminu og inn í sónarherbergi þar sem ljósmóðir tók við mér. Barnsfaðir minn var með mér voða spenntur en eitthvað skrítið var í gangi. Eftir smá tíma þar sem ljósan skoðaði og skoðaði og skoðaði og mældi og gerði ýmsar kúnstir, afsakaði hún sig og bað okkur að bíða meðan hún færi fram. Eftir smá voru ljósurnar orðnar 2 og svo kom læknir. Ég var með hjartað í hálsinum og beið eftir að fá slæmu fréttirnar. Það sem ég fékk að heyra var ekki alveg það sem ég bjóst við. Í sónar mældist drengurinn 22 merkur og ég er rétt rúmlega dvergur eða 150,5 cm á hæð. ,,Ég rifna í tvennt” öskraði ég í huganum en það kom ekki upp úr mér eitt einstaka orð (sem er óvenjulegt því yfirleitt get ég ekki hætt að tala). Ég labbaði sturluð af hræðslu inn í herbergið mitt og var farin að hugsa um hver gæti tekið barnið mitt að sér eftir að ég hefði upplifað þann skemmtilega dauðdaga að rifna í 2 helminga. Ég fór upp í rúm og beið eftir að fæðingarlæknirinn myndi tala við mig. Mikið var gott að anda léttar þegar hún sagði að búið væri að ákveða keysara. Hvort vildi ég 21 eða 22 janúar. Ég valdi 22

Þann 22. janúar 2004 var mér rúllað inn á fæðingardeild og skellt á skurðarborðið. Ég var tengd við 800 slöngur með sykurvatni og innsúlíni og mælir sem mældi sykurinn stanslaust. Ég var líka með sýklalyf í æð þar sem ég var með streptokokka þarna niðri sem getur haft alvarleg áhrif á barnið ef ekki er gert ráðstafanir. Mér hafði líka verið gefið svefnlyf kvöldinu áður og örugglega eitthvað meira því ég var High….. Ég man eftir að hafa sagt við ,,Fröken lækni” eins og ég kallaði hana að barnsfaðir minn mætti alls ekki snerta barnið mitt því hann væri með kaldar hendur og það væri reykingalykt af honum…..

Svo heyrði ég það klukkan 10.27, þetta yndislega reiðiöskur sem prinsinn gaf frá sér þegar hann var tekin úr hlýja, örugga og kósý staðnum sem hann var búinn að búa á síðustu 38 vikur. Minn maður var ekki tilbúinn í að fæðast og var reiður. Ég grét svo mikið að ég sá hann ekki þegar honum var lyft yfir tjaldið svo ég gæti kíkt á þessa fullkomnu veru sem ég hafði búið til. Hann fór beint í hitakassa og næstu klukkutímana myndi hann vera í stanslausu eftirliti þar sem börn sykursjúkra mæðra geta fallið alvarlega í sykri eða hækkað hratt… En minn kall kom fullkomlega út úr öllum mælingum.

Hann var líka ekki nema 16 merkur en ekki 22 eins og læknaliðið hélt fyrst og eina skýringin var að hann hefur legið þannig að það hefur komið skuggi. Skekkjumörk geta orðið en eru yfirleitt ekki svona mikil.

En loksins var hann kominn í heiminn, fallegasti strákur í heimi. Sá sem gaf mér besta titil í heimi og það er

MAMMA

Þetta er besta, erfiðasta, mest gefandi starf í heimi og ég myndi ekki skipta því út fyrir neitt.

Mig langar í framhaldinu að minna ykkur öll á að allar meðgöngur eru einstakar og það er allt í lagi að segja mér líður ekki vel, mér finnst ég ekki fallegust, mér finnst þetta ekki dásamlegur tími og allt hitt sem kemur í kollinn á ykkur. Ekki skammast þín, leytaðu ráða hjá heimilislækni, ljósmóður eða einhverjum ef þér líður ekki vel því ég lofa að það eru fleiri sem skammast sín yfir þeim tilfinningum sem þeir finna fyrir. Ég vildi óska að einhver hefði sagt mér að það er alveg eðlilegt að finnast þessi tími æðislegur en það er líka eðlilegt að finnast það ekki.

þar til næst, hugsið vel um hvort annað

Knús og kossar og fullt af hamingju

Kveðja

Mamman í Árbænum

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *