Nýtt ævintýri, nýjar slóðir.

Hvað er að frétta?

Það er sko ótrúlega mikið að frétta af mér en ég hef bara ekki fundið mér tíma til að skrifa það niður. Það væri kanski réttara að segja að letin hafi alveg fundið mig og við lagt okkur saman í sófann uppá síðustu mánuði.

Fröken sófakartafla

Nú til að byrja á réttum enda þá seldi ég íbúðina mína í Skógarásnum sem við sonurinn höfðum búið í hamingjusöm í 14 ár. Íbúðin seldist hratt og örugglega og var ég nokkuð sátt við verðið en ég get ekki sagt það sama um hvað ég þurfti að borga fasteignasölunni, jíhhhhhhh, sagði hún samankrumpuð í framan.

Nú kom upp það vandamál að ég væri heimilislaus þangað til að sonurinn væri búinn í skólanum en mig vantaði stað til að búa á í 1 og 1/2 mánuð. En vandamálin eru til að leysa þau og 1 mai var ég flutt uppá 2 hæð til nágrannans en hún eyddi sínum tíma í húsinu sínu sem hún á út á landi.

Sonurinn kláraði skólann og mamman var svo stollt að sjá eina afkvæmi sitt útskrifast úr grunnskóla. Það setti samt strik í reikninginn að geta ekki fengið að vera viðstaddur út af þessari asnalegu veiru en skólinn reyndi að koma á móts við okkur og var sent út á forriti sem heitir Meet. Ég er vön að nota Zoom og verð ég að segja að Meet er ÖMURLEGT. Kerfið var alltaf að frjósa, myndin óskýr og hljóðið slitrótt. En maður verður að sætta sig við það sem maður fær og var þetta samt betra en ekkert.

En núna var skólinn búinn og tími til að fara í smá ferðalag.

Við tókum dótið okkar og fengum að setja í geymslu og héldum förinni til Akureyrar þar sem við hittum vini okkar og var stefnan tekin á vestfirðina. Sagan af því ferðalagi er í hálfkláruðu bloggi sem kemur vonandi áður en 2021 er liðið 🙂

Mikið ofboðslega eru vestfirðirnir fallegir en OMÆ hvað það þarf að fara í vegaframkvæmdir því vegirnir eru ekki bara slæmir, þeir eru hrikalegir. Ég held stundum að verið sé að bíða eftir dauðaslysum áður en eitthvað er gert og ég viðurkenni alveg að ég fékk ofsakvíðakast á einum kaflanum því ég varð í alvörunni skíthrædd.

Eftir að vestfirðirnir voru kláraðir var farið aftur í Reykjavík. Núna vantaði okkur gistingu í 2 vikur og kom vinkona okkur til bjargar og fengum við að vera hjá henni þessa síðustu daga okkar í Reykjavíkinni.

Þar brölluðum við ýmislegt eins og að fara á rafskútur/rafhlaupahjól. Vá hvað það var geðveikt gaman. Veðrið var yndislegt og fórum við alla leið niður í miðbæ og fengum okkur franskar og ískaldann öllara (barnið fékk Pepsí). Síðustu helgina okkar gistum við hjá mömmu og voru tárin mörg þegar við kvöddum hana.

Núna var aftur lagt af stað um landið fagra en núna var suðurlandið keyrt og stefnan tekin austur.

Við skoðuðum ósköp lítið á suðurlandinu enda búin að fara 17 þúsund sinnum (nei þetta eru ekki ýkjur) með útlendingum að skoða það sem þar er að finna. Við gistum á nokkrum stöðum og var hver annar staður dásamlegur. Næst síðasta daginn okkar fórum við og hittum vini okkar frá Akureyri í Stuðlagili. Gangan þangað var yndisleg í góða veðrinu þótt að ekki allir hafi verið jafn hrifnir af þessari endalausu göngu, tímanum hefði betur verið varið í að horfa á youtube myndbönd.

Mikið rosalega er þetta falleg sjón. Bergið er svo mikilfenglegt og vatnið svo tært. Litirnir í náttúrunni voru óraunverulegir, eins og vatnslita málverk sem skartar veggi einhvers frægs listasafns. Ég segi bara takk fyrir þetta fallega sköpunarverk (já ég trúi á sköpun en ekki þróun)

Frá Stuðlabergi var haldið í Vök í böðin þar. Vá hvað það er sjúllað, mæli með því 100% að fara í þau.

Vatnið var hæfilega heitt og að geta keypt sér smá hressingu ofan í vatninu var bara notalegt.

Eftir svolitla stund var farið uppúr og haldið á 50’s dinerinn á Egilsstöðum. Þar rann ljúffengur börgerinn ofan í svanga munna og allir voru saddir og sáttir þegar dinerinn var yfirgefinn.

Þá var komið að því að kveðja alla því að morguninn eftir yrði klakinn kvaddur.

Við gistum síðustu nóttina á gistiheimili á Seiðisfirði en ég get ekki sagt að ég hafi sofið mikið. Um kroppinn læddist bæði kvíði og spenna fyrir ferðalaginu sem við vorum að fara í.

Smyrilline var næsti svefnstaður næstu 3 nætur því núna var ferðinni haldið til Danmerkur.

Við vorum bæði vopnuð sjóveikis armböndum og plástri en ég má helst ekki sjá sjó þá er ég orðin veik. Káettan var fín og nutum við að horfa út um gluggann beint á björgunarbát sem lá þar fyrir utan.

Þetta skip, bátur, dugga dugg er meiriháttar. Við Jóhannes skelltum okkur í heita pottinn í góða veðrinu og nutum þess að horfa á sjóinn á meðan við marineruðumst í heita vatninu og horfðum á meðan þetta stóra blágræna blauta leið fram hjá allt í kringum okkur.

Við komum að landi og henntumst í bílinn því núna var förinni heitið til Svíþjóðar. Svíþjóð hafði sem sagt dottið í lukku pottinn því það hafði verið valið til að verða nýja heimilið okkar.

Við byrjuðum á því að kíkja í kaffi til vinahjóna sem búa í Gautaborg en eftir það var förinni heitið til Askersunds.

Við komum seint um nóttina til bæjarins en ég hafði leigt Airbnb, rétt fyrir utan bæjinn fyrir nóttina. Ég rétt lokaði augunum og svo var farið aftur að stað núna inn í bæjinn sjálfann til að hitta leigusalana og fá lyklana afhenta að slottinu.

Sólin var hátt á lofti og þar sem við komum snemma skelltum við teppi á grasið og sleiktum sólina og nutum þessa að vera í garðinum meðan við biðum eftir eigendunum.

Húsið er dásamlegt. Krúttilegt í alla staði, nýuppgert og fallegt. Húsið sjálft er yfir 100 ára gamalt en allt inní því er tiltölulega nýtt.

Leigusalarnir eru feðgar og ég gæti ekki verið heppnari með þá. Það er alveg sama hvað ég tala um það er lagað eða fundin lausn á því.

Allt er í göngufæri frá mér, meira að segja System bolaget sem er sænska ÁTVR þannig að stutt að henda sér í búlluna til að versla rautt, hvítt, bjór eða í kokteilinn. Ég er einnig með matvörubúð, apótek, matsölustaði, fatabúðir, garnabúð og allt annað mögulegt í humáttina. Það sem eftir var sumars var bíllinn lítið notaður nema ég þyrfti að skreppa eitthvað lengra eins og til Örebro í Ikea sem er sirka 40 mín akstur að heiman. Bíllinn var svo lítið notaður að ég þurfti að þrífa kóngulóarvefina af honum þegar við þurftum að nota hann.

Ohh ég hlakka svo mikið til næsta sumars þegar við getum leikið okkur í garðinum, spilað kubb og badminton ásamt því að leika við nýja fjölskyldumeðliminn hann Loka.

En þar til síðar. Kannski ég ætti að reyna að klára gömlu bloggin sem eru í drafti????? Well kemur í ljós….

Loki sitjandi ofan á rassinum á Jóhannesi

Annars er það bara verið góð hvert við annað

kveðja frá konunni í Svíþjóð

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *