Plastið og verslunarferðin

Umræðan um flokkun plasts hefur vonandi ekki farið framhjá neinum. Nýlega samþykkti Alþingi plastpokabann frá og með 1.júlí, þá mega verslanir ekki gefa plastpoka heldur verður að greiða fyrir þá. 1. Janúar 2021 er svo stefnt að alsherjar plastpokabanni, hvort sem þeir eru keyptir eða ekki. Plastrusl er að verða stærra og stærra vandamál í heiminum og vonandi eru allir sem geta að reyna sitt allra besta í því að minnka sína plastnotkun.

Vikulega verslunarferðin er alltaf svolítið erfið. Ég reyni mitt allra besta að mæta með fjölnota poka, kaupi endurvinnanlega tannbursta og vel alltaf vörur í umhverfisvænni pakkningum fram yfir aðrar. Það er þó eitt sem hefur pirrað mig í langan tíma við verslunarferðina mína.

Á sama máta og ég styð endurnýtingu og endurvinnslu, þá langar mig að sjálfsögðu að minnka kolefnisfótsporið mitt og kaupa íslenskar vörur framyfir erlendar. Ég reyni því að kaupa íslenskt grænmeti.

Íslenskir grænmetisbændur eru að gera mér mjög erfitt fyrir með sinni, mjög svo óþörfu, plastnotkun. Ef ég sé paprikur í lausu og svo 2 íslenskar paprikur, sérpakkaðar í plastpoka með pappaspjaldi. Þá er ég alltaf að fara að velja þessar sem eru í lausu. Vaccumpakkaðar gúrkur og broccoli, hvað er það? Ég fékk auglýsingu um daginn á facebook hjá mér, þar var verið að dásama íslenskt grænmeti og til að undirstrika gæðin var sýndur poki af íslenskum gulrótum. Það var bara ekkert girnilegt við þennan poka.

Ég átta mig á að umbúðirnar eru eina leiðin fyrir grænmetisbændurna að sýna að vörurnar séu íslenskar. En það hlýtur að vera hægt að finna betri leið.

Ég vona innilega að íslenskir grænmetisbændur og verslunareigendur geti unnið saman og fundið leið til að stilla vörunum sínum upp á þann máta að það sé hægt að greina þær frá erlendum, án þess að nota allt þetta plast.

Endurnýtum, flokkum og skilum. Vinnum saman að betri framtíð.

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *