Poznan Pólland

Ferðir Íslendinga til Póllands hafa færst mikið í aukana.

Ég var að koma heim frá Poznan og ætla að sýna ykkur hvað er í boði þar, mæla með veitingastöðum, gefa ykkur sýn á verðlagi og birta númerið hjá frábærum leigubílstjóra á svæðinu.

Ég eins og margir hverjir flúði land vegna veðurs, bókaði ferðina 3 dögum fyrir brottför, algjör skyndiákvörðun þar sem að ferðalag út fyrir landsteinanna í sumar var ekki á planinu, heldur var búið að kaupa allt sem vantaði i tjaldferðalag innanlands sem við höfum ekki enn getað notað, svo þessi ferð gerði mikið fyrir okkur.

Byrjum frá byrjun……

Hvaða flugfélag?

Ég notaði Kiwi.com til að finna ódýrasta flugið með engum stoppum, hafa þarf í huga nýjustu breytingarnar hjá félaginu sem er Wizz

Þú kemst ekki um borð með flugfreyjutösku eða aðra að þeirri stærð nema að kaupa priority, hún er annars sett í lestina með öðrum töskum nema þú borgir gjald fyrir að fá að hafa hana, það breytti engu fyrir mig, ég var ekki  með neitt verðmætt í töskunni en þetta var ekki skemmtilegt fyrir aðra sem voru með allt sem fylgir börnum, fartölvur eða annað verðmæti með sér.

Borga þarf aukalega fyrir að velja sæti ef þið viljið sitja saman, sem ég held að allir vilja, það var ekkert mál að breyta því á keflavíkurflugvelli en alls ekki hægt í Póllandi, ef þarf að breyta þá þarf það að gerast minnst 2 dögum fyrir flug.

Kiwi.com sér um að tékka ykkur inn hjá Wizz online, síðan fær maður senda flugmiðana á mailið sitt 2 dögum fyrir heimferð.

 

Hvaða hótel?

Grand Royal Hotel Spa varð fyrir valinu, 4 stjörnu hótel með aðgangi að innisundlaug, tveimur heitapottum, gufubaði og líkamsræktarstöð sem er innifalið í verði, ásamt sloppum og inniskóm.

Borga þarf fyrir nudd og því dekri sem þið viljið njóta og úrvalið þar er gríðarlega mikið og flott.

Tvö pool (billjard) borð eru á hótelinu og kostar 5zl (145kr) hver leikur

Veitingastaðurinn var allt í lagi, leit allt vel út en maturinn mætti vera betri.

Hótelið er 7 km frá miðbænum.

Við fórum líka til að slaka á og þá hentaði þetta hótel vel.

Lítil sjoppa er nálægt og sniðugt að kaupa þar snarl og vatn til að eiga.

 

Leigubílar og verð?

Leigubílar eru alls ekki dýrir, það kostaði okkur að fara frá hótelinu í miðbæinn (7 km) 40zl sem er 1.150 íslenskar krónur, það er hægt að spara meira með að nota Uber, eða hreinlega vera á hóteli í miðbænum.

Mjög fáir leigubílstjórar tala ensku, við redduðum okkur með að hafa mynd og heimilisfang á þeim stað sem við vildum fara á.

Við þurftum að sýna þetta mjög oft og sérstaklega myndina af hótelinu sem við vorum á.

Flestir leigubílar taka bara á móti reiðufé, fáir komnir með posa.

Við lentum á einum leigubílstjóra sem talaði góða ensku og sagði okkur mikið frá borginni og allskonar upplýsingar sem okkur fannst gott að fá, ég fékk leyfi til að gefa ykkur nafnið hans og númer.

Við fengum nafnspjald og máttum hringja í hann hvenær sem er, það var gott að hafa fundið hann á þessu ferðalagi.

Hann heitir Andrzej og númerið er +48 660 426 427

Hvað er hægt að skoða í Poznan?

Alveg inni í miðborginni eru gömul hús sem mynda hring í kringum Old town hall, svæðið heitir Old town square, þar eru margir veitingastaðir, hótel og iðar þar af lífi, þar var mjög gaman að vera og njóta veitinga í góða veðrinu.

Þessi hús heita Budnicy Houses

Það er rosalega falleg kirkja staðsett í miðbænum sem er vert að sjá, hún heitir Lesser Basilica of St. Stanislaus og er algjört augnakonfekt og var erfitt að ná allri fegurðinni á mynd.

 

Imperial Castle er annað sem vert er að skoða, stórir gangar og stigar, risa hurðir, saga Poznan ritað í steina og svo imperial Castle Garden.

Imperial Castle Garden

Við eyddum svo einum degi í dýragarðinum sem er staðsettur hjá Lake Malta, Lake Malta var búið til af mönnum árið 1952 og er 2.2 km að stærð.

Nowe Zoo hefði verið betra ef börnin hefðu verið með, þá hefði verið hægt að nýta heilan dag til að skoða dýrin, taka með sér nesti og vera undirbúin að labba töluvert.

Það sem var skemmtilegast að skoða voru gíraffarnir, nashyrningarnir, fílarnir og tígrisdýrið. Við fengum talsverða hreyfingu úr þessum degi sem var frábært, hægt er þó að taka lest á milli staða.

Margt fleira sem hægt er að gera, mæli með góða google og plana útfrá því.

 

Veitingastaðir og verslanir

Brovaria er veitingastaður á hóteli, hann kom skemmtilega á óvart og fær hann okkar hæðstu einkunn af því sem við prófuðum.

Hægt er að setjast í stóra salinn eða á neðri hæðinni, það er meiri stemning að vera í salnum, hærri tónlist, hátt til lofts, neðri hæðin er meiri rólegheit og ekki jafn mikil læti.

Þessi staður bruggar sinn eigin bjór og voru tunnurnar til sýnis í stóra salnum, maturinn er í fínni kantinum.

 

Ratuszova Restaurant var flottasti staðurinn, þessi svipar til Vox í þeim efnum.

Við fórum þangað á flott deit og gerðum vel við okkur, sem kostaði okkur um 9.000 íslenskar krónur þar sem að við fengum tvo aðalrètti, eftirrètti og drykki.

Fremri salurinn er mjög stílhreinn og flottur og neðri hæðin var rosalega fallega skreytt.

Neðri hæðin

  Efri, meira stílhreint

Aðrir staðir sem við vorum ánægð með var….

Sphinx, þeir kunna að elda nautasteik og svínakjöt.

Whiskey in the jar er staður sem við vorum mjög ánægð með líka, við kunnum að meta gott nautakjöt og þarna færðu príma steikur og æðislega hamborgara.

Það má svo ekki gleyma þjórfé (tipsa) fyrir þjónana, það er 10-15% af heildar reikningi.

 

Við versluðum allt okkar í Posnania mollinu, mjög flott og nógu stórt.

Á neðstu hæðinni eru skápar sem þú getur geymt pokana þína á meðan þú verslar meira, það var mjög þægilegt að þurfa ekki að burðast með marga poka út daginn.

MUNIÐ að 2 til 3 sunnudaga í mánuði eru allar stórar verslanir lokaðar vegna nýrra laga sem tekin voru nýlega í gildi!

Hægt að er að finna dagsetningarnar á netinu.

Við lentum á midsummer sale og afsláttur á nánast öllu og verðið er nú lágt fyrir.

 

 

Þetta var æðisleg ferð og vel þess virði.

 

Þangað til næst <3

 

 

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *