Síðasti andardrátturinn

“Það er komið að þessu”

Orð sem ég var búin að bíða eftir með töluverðum kvíða heyrðust í símanum. Rússibani síðustu mánuða var að ljúka.

 

Systir mín var 46 ára gömul þennan laugardagsmorgun þann 16. október 2010. Þetta hafði verið langt og erfitt ferðalag sem hófst einu og hálfu ári áður. Hún var nýbúin að halda uppá 45 ára afmælið sitt þar sem mikil gleði var og allir skemmtu sér konunglega í litlu íbúðinni hennar á Barónstígnum. Nokkru síðar þá kosningahelgina var planið að hún færi í barnaafmæli til sonar góðra vinahjóna sinna en hún mætti ekki og lét ekkert vita af sér sem var fremur óvenjulegt af henni.

Systurnar í 45 ára afmæli Möggu.

Mánudagurinn rann upp og mætti Magga í vinnuna eins og vanalega en var ekki alveg eins og hún ætti að vera. Átti erfitt með hina auðveldustu hluti eins og að svara í símann og ákvað hún því að fara heim, væri eitthvað slöpp. Framkvæmdarstjóranum, sem einnig var besti vinur hennar, fannst eitthvað skrítið þegar starfsmenn sögðu honum hvað hafði gerst þannig að hann ákvað að kíkja á hana.

Það blasti ekki við honum fögur sjón þegar hann kom að heimili hennar en hún hafði fengið einhversskonar flog og dottið á þvottavélina og var alblóðug með skurð á höfði. Farið var með hana uppá sjúkrahús þar sem hún var send í alls konar rannsóknir til að finna út úr minnisleysi hennar, en hún virtist lítið muna eftir helginni, og hvað hefði ollið flogakastinu.  Ég var einmitt í heimsókn með mömmu þegar læknarnir komu með myndina af höfði hennar og sýndu okkur hver sökudólgurinn væri.  Á myndinni sást æxli. Hún fór í skurðaðgerð til að fjarlægja æxlið og sjá hvers kyns það væri, það var illkynja og vegna legu þess var ekki hægt að fjarlægja það. Framundan beið erfið lyfja,- og geislameðferð.

 (Í hestaferð 2004)

Lyfjameðferðin fór illa í hana og var hún oft mjög veik en hún reyndi eftir bestu getu að ganga í gegnum þetta með jákvæðninni að vopni. Einu sinni fékk ég að fara með henni í geislana og meðan ég sat örugg á bak við gler hjá sérfræðingunum og horfði á systur mína fann ég til mikillar hræðslu og hvíslaði “Þið getið læknað hana, þið getið lagað þetta” en ég sagði þetta svo lágt að það heyrði enginn í mér. Á sama tíma barðist ég við tárin því auðvitað verð ég að sýna systur minni að ég væri sterk og að ég trúði fullkomlega á að hún myndi sigra.
Tíminn leið og geislarnir gengu vel. Við fengum gleðilegar niðurstöður í kringum nóvember sem sýndu að æxlið hefði minnkað töluvert og væri næstum horfið. En þrátt fyrir þetta var mikil sorg í fjölskyldunni. Málið er að systir hennar mömmu átti dóttur sem var að klára sína baráttu við sama sjúkdóm. Sama dag og við fengum jákvæðar niðurstöður um að heilaæxlið væri næstum horfið hjá Möggu systir fengum við að heyra að Brynja frænka myndi kveðja þennan heim áður en árið yrðið liðið.
Ég man hvað Magga systir var stolt af mér þegar ég kláraði loks stúdentinn í desember 2009 þá 33 ára og fékk að vera í forsvari fyrir stúdentana og hélt ræðuna. Mamma hélt smá veislu en þrátt fyrir að vera ánægð að hafa náð þessum áfanga þá var ég líka að farast úr samviskubiti því að útskriftin hitti á sömu helgi og Brynja frænka var jörðuð fyrir norðan. Ég var búin að segja við mömmu að fara til Akureyrar en hún vildi gleðjast með mér og systir hennar mömmu sagði líka að annað kæmi ekki til greina.
Tíminn leið og við fengum nýjar fréttir eftir áramót. Æxlið hafði stækkað aftur og önnur lyfjameðferð var sett af stað. Þetta var fyrsta áfallið af mörgum sem hrúguðust inn næstu mánuði.

Mamma hringdi í mig hvítasunnuhelgina 2010. Magga hafði farið með vinahjónum sínum og syni þeirra í sumarbústað og þar hafði hún fengið flog sem hún var ekki að koma úr. Sjúkrabíll sótti hana en þurfti að stoppa á Selfossi til að læknir gæti hugað að henni áður en hægt var að koma henni til Reykjavíkur. Mamma og Agnes systir voru þær einu sem máttu fara niður á spítala og man ég hvað tíminn leið ógurlega hægt og síminn minn hefur aldrei verið jafn óþolandi hljóður. Við sátum saman ég og litla frænka mín og biðum heima hjá mömmu eftir fréttum. Loksins hringdi síminn. Magga hafði fengið heilablæðingu en væri úr hættu og við máttu heimsækja hana næsta dag. Sú heimsókn gerði manni grein hversu alvarlegt þetta var. Þegar okkur bar að garði voru 2 hjúkkur að fara með hana á klósettið. Hún sá okkur Söru frænku og horfði stíft á okkur. Hjúkkurnar spurðu hana hvort hún þekkti okkur og hún svaraði játandi en þegar hjúkkurnar spurðu hvort hún vissi hverjar við værum sagði hún nei. Vá hvað það var erfitt. Blæðingin gekk til baka og hún fór fljótt aftur í að þekkja alla aftur og vita hverjir þeir voru en maður var farinn að sjá hvað æxlið var að gera henni. Hún ruglaði orðum saman og talaði oft mjög vitlaust. Hún mundi ekki hvað ég hét en kinnti mig sem bróður sinn. Sumarið leið og ég vann hjá Freyju þetta sumar á skrifstofunni. Dagamunur var á heilsu systur minnar og alltaf hélt maður í vonina. Það kom svo að því að Sara frænka hringdi í mig hágrátandi í vinnuna.  Magga hafði fengið aðra heilablæðingu og væri komin inn á sjúkrahús og hún myndi aldrei fara heim aftur. Ég hágrét inná klósetti, þurrkaði svo tárin, beit á jaxlinn og fór fram á skrifstofu. Þar kláraði ég 2 tollskýrslur sem ég átti eftir og eitthvað smá meira af pappírsvinnu á met tíma. Labbaði svo inn á skrifstofu til dóttur eigandans og lét hana vita að ég hefði klárað þetta sem þurfti að gera og hvort ég mætti fara heim. Við það brotnaði ég alveg niður. Ég gat orðið ósköp lítið lengur. Sálartetrið var orðið svo veikburða og tætt að ég skil stundum ekki á hverju ég hékk, hvernig ég gekk í gegnum þessa daga.
Eftir einhverja smá legu á krabbameinsdeild Landspítalans var ákveðið að flytja hana á líknadeildina. Það væri í raun ekkert meir sem hægt væri að gera fyrir hana. Núna myndi bara biðin eftir endalokunum vera eftir. Vonleysið hafði tekið yfirhöndina og allir gengu um með feik bros og reyndu að gera sitt besta að til að þrauka út daginn.

“Það er komið að þessu”

Orðin sem mamma sagði í símann laugardaginn 16. október 2010

Ég fór með soninn í pössun og dreif mig uppá líknadeildina í Kópavogi.

Mamma tók á móti mér uppá líknardeildinni og hjúkrunarfræðingur settist hjá mér og útskýrði nokkra hluti fyrir mér eins og að andardrátturinn hjá henni væri hryglukenndur en hún finndi ekkert til og ég þyrfti ekkert að vera hrædd við þetta. Ég hélt hún væri eitthvað skrítin, ég meina þetta er systir mín þetta væri ekkert mál og inn ganginn arkaði ég hugrökk og inn í herbergi. Um leið og ég kom þar inn fékk ég hálfgert taugaáfall. Þarna lá hún tengd öndunarvél með morfín í æð og hljóðið sem heyrðist þegar hún andaði var hræðilegt. Ég brotnaði algjörlega saman og grét með þeim orðum “Ég get þetta ekki, ég get þetta ekki” Mamma og hjúkkan leiddu mig út úr herberginu og inn í kapelluna þar sem mér var gefið róandi tafla og svo sendi hjúkkan mömmu aftur inn og talaði rólega við mig. Áður en ég vissi vorum við að rölta inn ganginn að herbergi systur minnar en stoppuðum á leiðinni og töluðum smá en héldum svo áfram. Svona gekk þetta þar til við vorum komnar að dyrunum að herberginu og þar stóðum við örlitla stund fyrir utan herbergið og horfðum inn. Allt í einu segir hjúkkan æjjj hún er svo þurr það þarf að bera á hana krem, geturðu hjálpað mér. Það var eins og ekkert væri eðlilegra, ég var komin með hlutverk og allt í einu gat ég verið þarna inni og stolt og ánægð bar ég krem á fæturnar á fallegu systur minni. Eftir smá tíma fann ég hvernig fæturnir kólnuðu og hvítnuðu og vissi ég strax að núna væri tíminn kominn. Blóðið var hætt að renna niður í fæturnar þannig að ég tók í hendi hennar og fór að bera á hægri handlegg hennar. Í kringum rúmið hennar stóð mamma og Haukur pabbi hennar, Ragna konan hans, Stína Magga besta vinkona hennar og Sandra Lind dóttir hennar og svo ég og hjúkkan. Ég man ekki hvort fleiri voru þarna það getur vel verið en ég man eftir þessum.
Svo kom að því að hún dróg djúpt inn andann og andaði frá sér og svo varð allt hljótt. Við stóðum öll kyrr og hljóðlát með tárin í augunum í lengri tíma. Þetta var búið. Það liðu örugglega 10 til 15 mínútur en þá tók hún allt í einu andköf en þau voru þau allra síðustu sem hún tók. Hjúkrunarkonan útskýrði að stundum gerðist þetta eftir að fólk er látið. Eins og taugakippir en systir mín var farin. Fallega, skemmtilega, duglega og sterka systir mín hafði kvatt þennan heim.
Tilfinningin sem ég fann fyrir var eins og að vera í draumi, ótrúlega vondum en skrítnum draumi. Allt varð svo furðulegt, ég var þarna á svæðinu en samt var eins og ég væri ekki þarna.
Mamma leit með grátbólgnum augum á starfsfólkið á líknardeildinni og sagði “þið verðið að fyrirgefa að þið fáið engar pönnukökur í dag” en allan tímann sem systir mín hafði legið á deildinni kom mamma með pönnukökur með rabbabarasultu (það var uppáhald Möggu) og rjóma fyrir alla deildina, starfsfólk, sjúklinga og aðstandendur. Hún bakaði og þeytti á milli einn til tvo lítra af rjóma alla laugardaga frá því í ágúst fram til þessa örlagaríka dags þann 16. október 2010. Starfsfólkið brosti og sagði veistu hvað í dag ætlum við að baka fyrir þig.

Ég hugsa en til þessa dags og er ánægð að hafa getað verið þarna þegar hún dró sinn síðasta anda. Að ég hafi getað borið krem á hendi hennar og fætur í allra síðasta sinn. Ég væri að ljúga ef ég segði að ég væri ekki að þurrka tárin hérna meðan ég rita þessi orð en ég veit að ég hitti hana aftur. Ég er mjög trúuð og þótt mér finnist þetta ekki vera rétti staðurinn til að ræða trúmál þá eru þau hluti af mínu daglega lífi og munu koma að einhverjum hluta upp. Trúin hefur hjálpað mér  ótrúlega í gegnum þetta allt og alveg frá því á þessum tíma og til dagsins í dag held ég í vonina og trúi því 100% að ég muni hitta hana aftur, hlæja með henni og borða pizzu og drekka rauðvín eins og við gerðum hér í denn.

Það getur enginn ímyndað sér allan þann vanmátt sem maður finnur fyrir að vera aðstandandi, reyna að brosa og segja hughreistandi orð þegar manni langar mest til að öskra af reiði. Þunglyndið og kvíðinn sem lamaði mann, gerði manni erfitt með að anda. Baráttuna við allt og alla og það að sjá vonarneistann slokna og loks lífið í augum systur minnar.

Orð mömmu munu örugglega aldrei hverfa úr huga mínum þegar hún sagði “Ég var hjá henni þegar hún tók sinn allra fyrsta andardrátt og ég var líka hjá henni þegar hún tók sinn síðasta”

 

 

Ef þið vitið um einhvern sem er að ganga í gegnum það að ástvinur er að ljúka baráttu sinni á þessari jörð, ekki vera feimin, það þarf ekki mikið til að hjálpa. Koma í heimsókn, bjóðast til að passa svo viðkomandi getur farið og heimsótt ástvininn, vera til staðar og hlusta.

Mig langar til að skrifa meira um það sem skeði á eftir, jarðarförina, uppgjöfina, reiðina en það verður að bíða til seinni tíma.

þar til síðar

Kveðja

Bryndís Steinunn

You may also like...

2 Responses

  1. October 17, 2018

    […] þessum orðum hefur Bryndís Steinunn einlæga færslu sína á síðunni Amare. Þann 16. október árið 2010 var komið að deginum sem Bryndís, ásamt fjölskyldu og vinum […]

  2. October 17, 2018

    […] þessum orðum hefur Bryndís Steinunn einlæga færslu sína á síðunni Amare. Þann 16. október árið 2010 var komið að deginum sem Bryndís, ásamt fjölskyldu og vinum […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *