Siðlaust eða Viðskiptasnilld

Mig langar að fjalla um hlut sem ég uppgötvaði bara fyrir örfáum dögum síðan.

Ég og sonurinn vorum búin að koma okkur vel fyrir inní stofu, með popp og kósýheit og ætluðum að horfa á allar Hotel Transilvania myndirnar. Við byrjuðum á að setja nr. 1 í og þá kom upp vandamál.

Wrong Region……

Ertu að djóka.

Auðvitað keiptum við nr. 1 í USA og gamli spilarinn okkar gat spilað öll kerfi en núna var hann dáinn og nýji spilarinn er því einungis Region 2 spilari. Ég stökk strax í símann til að spyrja besta vin minn sem veit allt, Google, um hvað hægt væri að gera. Í þetta skiptið var ekki hægt að treysta á hinn alvitra Gúgga og enduðum við með að sleppa að horfa á fyrstu myndina.

Daginn eftir rauk ég upp í Elko og talaði við gaurana þar um þetta hræðilega og lífsnauðsynlega mál og hvernig ég gæti reddað þessu.  Svarið var einfaldlega það er ekkert hægt að gera. Blue ray spilararnir eru gerðir þannig að ekki er hægt að hakka þá til að spila annað kerfi.

Arrrrrggggg ég fékk áfall og hringdi næstum í vælubílinn því hvað gerir maður núna. Hafiði einhverja hugmynd hvað ég á mikið af æðislegum, klassískum myndum sem ég hef keypt í Bandó…… Við erum að tala um Sound of music, My fair lady, Wizard of OZ, Singing in the rain og fleiri perlur. Ég meina hvernig get ég haldið áfram að lifa ef ég get ekki horft á þessar myndir lengur.

Ég herti mig upp og spurði afgreiðslumanninn hvort hann ætti þá DVD tæki sem gæti spilað Region 1 kerfi. Svarið var eins og köld gusa sem helltist yfir mig alla eins og ég væri að taka þátt í Ice bucket challenge. Nei því miður við erum ekki með svoleiðis tæki lengur.

Hvað gera einstæðar mæður í Árbænum þá?

Eftir áfallahjálp og kaffibolla róaðist ég aðeins og lagði málið til hliðar. Svo kom svarið

Alli frændi átti til tæki sem er Region free og kostaði ekki nema 3000 krónur og konan sem verður að eiga allt skellti sér á tækið og bíður núna spennt eftir að fá það í hendurnar svo hún geti nú andað rólega með kakóbolla í hönd og horft á allar myndirnar sem hún á.

En pirringurinn hefur ekki farið úr hausnum á mér.  Mér finnst fáránlegt og mjög ósanngjarnt að þetta sé almennt gert. Það er ekki eins og ég hafi stolið myndunum heldur borgaði ég fullt verð fyrir þær en get ekki notið þeirra. Fyrir mér finnst mér þetta vera svindl og í raun þjófnaður á viðskiptavininum. Þú ert að kaupa vörur sem þú borgar uppsett verð fyrir en þú þarft að búa á réttum stað til að geta notað hana.

Ég veit að þeir geri þetta svo að einhver í Evrópu fari ekki og kaupi 10.000 myndir í Bandó og borgar minna fyrir þær og selur þær svo á hærra verði t.d. hér á Íslandi og græðir á því. Þetta er gert til að stjórna verði og viðskiptum og þrátt fyrir að vera vita siðlaust, að mínu mati, þá er þetta 100% löglegt.

Þetta er viðskiptahugsunin sem er í öllu og stjórnast eingöngu af græðgi.

Sama má segja um verslanakeðjur sem staðsettar eru út um allt. Sumar þeirra hafa verðið hærra í búðum sem standa á betri stöðum.  Verslanir sem eru með búðir í Kringlunni geta selt vöruna sína dýrari þar af því að það eru í raun fleiri sem koma þangað en í segjum t.d. Mjóddina eða Skeifuna.

Það er alltaf verið að svindla á okkur og í raun leyfum við það. Við höldum áfram að versla og gera hluti eins á hverjum degi því þannig hefur það alltaf verið og ég er ekkert skárri. Ég borga uppsett verð án þess að spá í það og held græðgisspillingunni áfram gangandi.  Stundum kemur samt gamli bardagaunglingurinn upp í mér sem langar að breyta heiminum og gera allt betra og sanngjarnara en að lokum slær miðaldra konan, unglinginn utan undir og segir honum að þegja því að hún sé þreitt og nenni ekki að standa í þessu. Með það er baráttunni lokið og ég er aftur komin í neyslumunstrið sem ég er vön.

En stundum þarf ég bara að pústa yfir hlutunum.

En þar til næst

Knús og hamingja til ykkar

Konan í Árbænum

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *