Þriðja og síðasta kynningarbloggið í bili

Þriðji nýji bloggarinn á amare.is mættur til leiks !

Ég veit ekki hvort ég ætti að segja ykkur hversu lengi ég var að byrja á þessum kynningarpósti. Ætti að vera auðveldasta bloggið, segja frá grunnatriðum um sjálfa mig, en grauturinn verður þykkari þegar ég þarf að hljóma áhugaverð og skemmtileg, svo þið nennið nú örugglega að fylgjast með komandi framtíð. Af hverju er svona auðvelt að draga okkur sjálfar niður, og erfitt að upphefja okkur? Sit hérna með krepptar tær með áhyggjur af því að mitt daglega líf sé svo ómerkilegt, að ég eigi ekkert erindi sem bloggari. Well, screw that. Hér er ég.

 

Ég heiti Katrín Ósk Jóhannsdóttir og er 28 ára, fædd 1990.
Ég bý á Völlunum í Hafnarfirði , en ólst upp í Seljahverfinu. Þessi tvö hverfi eru eins frábrugðin hvor öðru og hægt er. Botnlanginn í Seljahverfinu, háu trén og fallega tjörnin gerðu mig að heilmiklu umhverfissnobbi svo að koma á Vellina, þar sem sést varla til trjáa og allt umlukið hrauni tók tíma að venjast, en okkur líður virkilega vel hérna og verðum hér á meðan börnin klára skólann.

Ég á þrjú börn og einn kall. 10 ára, 6 ára, 4 ára og þrítugt stykki. Við foreldrarnir erum í minnihluta á heimilinu og suma daga fer það ekki framhjá neinum! Þegar ég er spurð að því hvernig gangi þá gef ég reglulega sama svarið; Börnin eru á lífi, svo við hljótum að vera að gera eitthvað rétt!

Ég vinn hjá Rúmfatalagernum sem deildarstjóri smávörudeildar á Smáratorgi. Ekkert glamúr starf en ekkert lítið sem við starfsfólkið skemmtum okkur saman. Þegar ég er ekki þar eða á hvolfi hér heima þá skrifa ég barnabækur. Ég hef gefið út þrjár lestrarbækur og eina þrautabók. Sú nýjasta, Mömmugull, kom út núna í september, og gott fólk, þetta er jólagjöfin í ár!

Ég myndi segja ykkur frá áhugamálum mínum ef ég ætti þau. Ég er að upplifa lífsfjórðungs-krísu, sem þýðir að ég veit ekkert hvað ég ætla að verða þegar ég er orðin stór, eða um hvað líf mitt á að snúast. Ég hef engan tíma fyrir áhugamál á meðan ég er að ala upp herinn minn og reyna að gefa út bækur. En það er hellingur sem mig langar að gera. Eins og að eiga kajak og sigla á honum í nauthólsvíkinni, af því að ég þori ekki út fyrir baujurnar þar. Og eignast Costco-kort aftur. Það er efni í annað blogg.

Ég hlakka til að stíga út fyrir rammann og blogga reglulega fyrir ykkur. Um hvað ég blogga verður bara að koma í ljós. Ég er hamfarakokkur og get ekki hjálpað ykkur bofs við eldamennskuna, ég fékk ekki húsmæðrahæfileikana frá móður minni og er sjálf að stúdera bókina hennar fröken Diego til að bæta mig og þegar kemur að uppeldi tel ég að það sé ekki til ein rétt leið, svo að mitt uppeldi hentar næstu foreldrum engan veginn.  Sem sagt; Katrín getur ekki kennt ykkur neitt!  En vonandi hafið þið gaman að því sem ég næ að gubba upp úr mér! :p

 

Alltílæ, bless.

 

You may also like...

1 Response

  1. amare.is says:

    Mér finnst þú mjög áhugaverð eftir þennan lestur. Ég er viss um að þú getur kennt okkur heilmargt án þess að þú vitir það.

    Alla vega gaman að kinnast þér
    kveðja
    Bryndís Steinunn

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *