Til hamingju, þú ert orðin kona!!!!

Til hamingju, þú ert orðin kona! Þessi setning hefur hljómað oft í huga mér og ég skil hana ekki. Hvað er svona gleðilegt og frábært að byrja á blæðingum og hvers vegna er hamingja sem fylgir þeim? Ég man eftir því þegar Rósa frænka kom fyrst í heimsókn, það var 12. júní 1989 (já ég man dagsetninguna því ég hafði skrifað hana niður í dásamlegri bók sem heitir stelpnafræðarinn) Ég vaknaði um morguninn og það var blóð í nærbuxunum. Ég veit ekki alveg af hverju en ég varð hálfhrædd, hringdi í mömmu. Deginum áður hafði ég fundið fyrir miklum verkjum í baki og maga og ég hélt að ég væri að verða lasin. Já ég fann strax til frá fyrstu blæðingum.

Ég man aldrei eftir að það hafi fylgt því hamingja þegar sá tími mánaðarins var en ég man hins vegar eftir kvölunum. Að liggja í keng, grenjandi og jafnvel ælandi úr verkjum. Það kom líka fyrir að það leið yfir mig ef ég stóð upp og sama hvað þá virkaði ekkert.

Hreyfðu þig meira. Hreifingin gerir það að verkum að blóðflæðið eykst til vöðvanna og þér mun líða betur… UMMMMMMMM NEI virkaði ekki baun.

Þetta lagast ef þú ferð á pilluna…. Ehhhhh búin að vera á henni síðan ég var 13 ára, virkar ekki.

Það eru til verkjalyf, nálastungur, meðferðir já well búin að prufa allt af þessu.

Ég man eftir því þegar ég var 16 ára var ég farin að spá í hversu mörg ár væru sirka þangað til að ég myndi fara á breytingaskeiðið og kvalirnar myndu stoppa.

Ég átti erfitt með að stunda skóla og vinnu vegna þessa og þar sem ég var með karlmann sem yfirmann þá skildi hann þetta engan veginn, kallaði mig aumingja og letingja og lagði mig í svo mikið einelti að það endaði með að starfsfólkið kvartaði fyrir mína hönd í trúnaðarmanninn.

Það var svo einn dag í september sem ég fékk svo miklar kvalir að mamma hringdi á næturlæknir sem hringdi á sjúkrabíl því hann var viss um að botnlanginn væri við það að sprynga eða nú þegar sprunginn.

Niður á spítala fór ég þar sem ég var skoðuð en þar sem ég var ekki með hita þá fékk ég verkjalyf og eyddi nóttinni hjá þeim en var svo send heim. Það leið einn dagur og aftur var ég komin uppá spítala. En og aftur stoppaði allt á því að ég væri ekki með nema nokkrar kommur en þeir héldu mér í 2 daga hjá sér, sendu mig í sjúkrabíl yfir á landspítalann í skoðun uppá kvennadeild þar sem ég öskraði úr kvölum þegar læknirinn þreifaði á hægri eggjaleiðaranum og eggjastokknum. Ég var send til baka á Borgarspítalann var þar eina nótt og send svo heim þrátt fyrir að kvennsjúkdómalæknirinn hafi talað um að það væri eitthvað að.

Jú ég fékk nú með mér einhverjar verkjatöflur heim og ósk um gleðilega helgi, það var nú einu sinni föstudagur.

Ég lá í rúminu alla helgina í hálfgerðu móki en dröslaðist í afmæli til litlu frænku minnar sem þá var orðin 4 ára. Þar sat ég í sófanum og langaði bara að fara heim og aftur uppí rúm.

Ég var heima á mánudeginum en ákvað að drösla mér í skólann á þriðjudeginum þar sem læknar voru nú eiginlega búnir að segja mér að það væri ekkert að mér, ég væri bara að ímynda mér örugglega þessa verki.

Fyrsti tíminn var félagsfræði og þar sat ég með tárin í augunum, svitnaði köldum svita af verkjum og langaði að öskra. Þegar tíminn var búinn kom kennarinn til mín og sagði mér að fara heim, ég væri greinilega fárveik.

Ég labbaði útí strætóskýli en fattaði þegar strætó var að koma að ég var ekki með græna kortið mitt. Ég ákvað því að labba til mömmu í vinnuna, kengbogin og útgrátin.

Mamma rauk strax með mig uppá spítala þar sem henni var tilkynnt að þeir myndu halda mér yfir nótt en þetta væri bara einhver smá magapína. Með þessu var mælirinn fullur hjá móður minni. Hún tók trillingskast og lét þá alveg vita að hún þekkti dóttur sína og það væri eitthvað meira að en smá magakveisa. Hún vildi líka ekki heyra að þetta gæti ekki verið mikið því ég næði ekki 38 stiga hita þar sem ég væri með mjög lágan líkamshita og færi sjaldan yfir 37 (normal líkamshitinn minn er í kringum 35,5)

Mamma heimtaði speglun, því ekki bara að ég væri í miklum kvölum heldur var ég útblásin og mátti ekki koma við mig án þess að ég öskraði af sársauka.

Mamma mín er hörkukélla og hræddi líftóruna úr læknunum enda var ég undirbúin fyrir örlitla svæfingu þar sem gert yrði lítið gat á maganum hjá naflanum, tæki enga stund.

Ég vaknaði inná gjörgæslu tengd fullt af tækjum, súrefni í nösunum, með næringu í æð ásamt verkjalyfjum, sýklalyfjum og blóði. Ég hafði verið 6,5 klt í aðgerð. SEX OG HÁLFAN KLUKKUTÍMA!!!!

Þegar þeir spegluðu kviðarholið kom í ljós alvarleiki málsins. Á hægri eggjastokki blasti við blaðra á stærð við barnshöfuð. Ekki var hægt að segja hversu stór hún hefði verið því gat var komið á hana og lak blóðið í kviðarholið og var farið að úldna þar. Mér var að blæða út innvortis og hefði ekki lifað af nóttina ef mamma hefði ekki bilast niðrá slysó.

Árin liðu og það voru ekki fáar sjúkrahúsferðirnar þar sem ég endaði alltaf á að fá morfínskyld verkjalyf til að lina kvalirnar. Ég var búin að prufa flest allar hormónapillurnar en ekkert virkaði. Fúlast fannst mér að þar sem ég varð að vera á pillunni vegna sjúkdóms (PCOS, eða fjölblöðruheilkenni) fékk ég hana samt ekki niðurgreidda. Ég varð ófrísk af stráknum mínum og vonin um að túrverkirnir myndu nú vera á bak og burt kviknaði því sagt var að þeir minnkuðu eða hurfu við barnsburð. Þetta varð ekki mín reynsla því það eina sem breyttist var að ég fékk stanslausar blæðingar. Stundum miklar, stundum litlar en stanslausar. Aftur var farið í að troða mér á pilluna en útkoman var sú sama og áður, ég hefði alveg eins getað étið smartís og þá var ákveðið að setja mig á hormónalykkjuna. Enn og aftur þurfti ég að borga fullt verð fyrir hana og tóku sjúkratryggingar engann þátt í þessu.

LYKKJAN VIRKAÐI í nokkra mánuði og svo byrjaði ég að blæða fleiri og fleiri daga og 5 árum síðar þegar hún var tekin blæddi sirka 25 daga í mánuði.

Ég ákvað að setja ekki upp nýja alla vega til að byrja með en það voru mikil mistök. Það kom margoft fyrir að það blæddi svo mikið að ég varð blóðug niður á hné á nokkrum sek. Kvíðinn og skömmin sem fylgdu þessu voru gríðarleg og gekk ég með 2 næturbindi og fæðingarbindi daglega sem oft dugðu ekki. Ég ferðaðist með handklæði með mér til að sitja á ef ske skildi að blæddi í gegn og að sjálfsögðu var ég alltaf með auka föt.

Ég endaði með að gefast upp, fékk lykkjuna aftur og sótt var um legnám en ég fékk alltaf neitun. Við sóttum um það í tæplega 5 ár. Loksins var mér boðið í viðtal og skoðun og fékk að vita að ég gæti farið í fullt legnám þar sem ég væri með PCOS, ENDROMETRIOSU og OFSABLÆÐINGAR en ég gæti samt alltaf hætt við, væri enn það ung að ég gæti eignast fleiri börn og ég hugsaði hummm hvernig ætti ég að verða ófríst þar sem ég er á hormónalykkjunni og alltaf á blæðingum.

Aðgerðinni var frestað nokkrum sinnum en loksins fór ég þar sem barnaherbergið var tekið að fullu nema ein rússapera var skilin eftir (vinstri eggjastokkur) svo að ég myndi ekki fara harkalega inná breytingaskeiðið.

Lokskins loksins er þessum hrillingi lokið. Ég fæ einstöku sinnum eins og draugaverki en þeir standa bara í nokkrar mínútur og svo er það búið.

Ég mun aldrei óska neinni stelpu til hamingju með fyrstu blæðingarnar því þótt að sú stúlka fái ekki verkina þá mun hún samt þurfa að blæða í sirka 5 daga í 40 plús mínus ár og það eitt er ekkert skemmtilegt. Það er margt annað sem gerir það að verkum að hún verður kona og mér finnst blæðingar ekki vera eitt af því.

En annars hugsið vel um hvort annað

kveðja

konan í Árbænum

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *