Vilhjálmur Vilhjálmsson

Vilhjálmur Vilhjálmsson eða Villi Vill eins og við þekkjum hann flest var einn af perlum Íslands. Ég hef alltaf talað um hann sem hinn Íslenska Elvis því lögin hans lifa enn í dag og færa manni minningar um tíma þegar maður var lítill þar sem mamma var með græjurnar í botni að þrífa, syngjandi við hvert lagið, Bíddu pabbi, Lítill drengur, Litla sæta ljúfan góða, Árið 2012 og ekki má gleyma Söknuður.

Um síðustu Hvítasunnuhelgi bauð mamma mér og syni mínum á tónleika til heiðurs Villa.

Auðvitað var ég spennt enda elska ég Villa útaf lífinu en ehhhhh ég var ekki viss um Friðrik Ómar. Ég hef alltaf litið á hann sem Eurovision gaur sem allar mömmur elska og vildu óska að hann væri tengdasonur þeirra en ekki mikið meir en það. Sú ímynd flaug út um gluggan fljótt því þvílík rödd, þvílíkur performer, þvílíkur listamaður.

Ég fékk hroll og gæsahúð í hvert sinn sem hann tók háar nótur og hélt þeim svo lengi að ef ég myndi reyna það væri búið að líða yfir mig alla vega einu sinni af súrefnisleysi. Það var eins og þetta væri ekkert mál og tónarnir dönsuðu frá honum og fylltu hjartað af gleði og hamingju

Ekki voru hinir meðsyngjararnir (er þetta ekki örugglega orð) af verri endanum en Margrét Eir og Erna Hrönn þöndu raddirnar bæði í bakröddum en einnig með einsöng sem var dásamlegur að hlusta á. Jogvan kom einnig og er hann algjör krúttsprengja eins og vinur hans. Þeir tóku Lítill drengur bæði á Íslensku og Færeysku og var það ofsalega skemmtilegt að hlusta á.

Ekki má heldur gleyma henni Katrínu Halldóru sem fór svo snilldarlega með hlutverk sitt sem Ellý í samnefndu leikriti sem var sett upp í Borgarleikhúsinu við ótrúlegar vinsældir enda stórkostlegt leikrit og alveg einstök söngkona þarna á ferð. Hún tók lagið með Friðriki og eina sem ég get sagt er VÁÁÁÁ

Allt tónlistarfólkið sem og annað starfsfólk sem koma að sýningunni á hrós skilið því allt var svo flott og leið sýningin eins og vel smurð vél. Ég var líka að fíla útgáfurnar á lögunum og varð ég messt skotin i Angelia útgáfunni en það lag hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér

Þegar líða tók á tónleikana tilkynnti Friðrik Ómar að Þóra kona Vilhjálms væri viðstödd ásamt dóttur hans og barnabörnum. Friðrik söng svo beint til Þóru lagið sem Villi samdi fyrir hana “Þú átt mig ein” Tilfinningarnar, söngurinn, stemmingin og vita það að konan hans var þarna varð yfirþyrmandi og þetta yfirtók mig alveg sem endaði með að ég var hágrenjandi og ekki batnaði það þegar Söknuður fór að óma frá sviðinu. Ég held að það séu ekki til mörg lög sem snerta mann eins og það lag enda eigum við öll einhvern sem við höfum misst og söknum ógurlega.

Ég veit að þegar Friðrik Ómar setur upp aðra sýningu hvort sem það verður aftur til mynningar um Villa (Nennirðu plís að setja þetta upp aftur) eða eitthvað annað þá mun ég pottþétt mæta. Eina sem ég saknaði var Einshljóðfærissinfóníuhljómsveitin og uppáhaldsalagið mitt Glugginn hennar Kötu. Hey kanski ég hafi bara samband við Friðrik og við tökum þetta bara saman.

Eitt af því sem mér fannst best og minnistæðast er þegar 15 ára unglingurinn minn söng hástöfum frá dýpstu hjartarótum ,,Bíddu pabbi” og sagði svo ,,Mamma þetta er tónlistin sem börnin mín munu hlusta á”

Já þetta er tónlist sem mun lifa áfram og vonandi gleðja næstu kynslóðir eins og hún hefur glatt mig. Tónlist með tilfinningar, hjarta, hamingju, sorg og gleði og ótrúlega vönduð

Ég vil vitna í eitt lagið sem Villi söng hér í denn og ég hef minnst á hér fyrir ofan svona í lokin því það er smá söknuður í eldri tíma 🙂

,,Gömlu dagana gefðu mér þá gat ég verið einn með þér nú tæknin geggjuð orðin er. Gömlu dagana gefðu mér”

Lag: Árið 2012 Laglína: Buck Owens Texti: Magnús Ingimarsson og Ómar Ragnarsson

En þar til síðar eigið dásamlega syngjandi daga

kveðja frá konunni í Árbænum

You may also like...

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *